Harður toppslagur í hermakappakstri

Hefð hefur skapast fyrir því að keppendur skreyti bíla sína …
Hefð hefur skapast fyrir því að keppendur skreyti bíla sína með merki vinnustaðar síns og merki bílablaðs Morgunblaðsins.

Íslensku mótaröðinni í kappaksturs-tölvuleiknum Gran Turismo Sport fer senn að ljúka. Í kvöld fer fram ellefti kappaksturinn af tólf á þessu keppnistímabili og ferðinni heitið á Fuji Speedway-kappakstursbrautina, við rætur sjálfs Fuji-fjalls. Verða það bílar í styrkleikaflokknum Super GT (Group 2) sem etja kappi

Guðfinnur Þorvaldsson, sem stofnaði GTS Iceland í fyrra, segir að áhuginn á mótaröðinni hafi aukist hratt undanfarin misseri og er nú svo komið að færri en vilja komast að í aðalkeppninni. Er því fyrirhugað að bæta við nýrri deild svo fleiri geti skemmt sér, og sýnt hvað í þeim býr, í tölvuleikjakappakstri.

Vaxandi áhugi þýðir m.a. að keppnin um efstu sætin fer harðnandi og margir sem leggja mikinn metnað í að bæta sig sífellt sem ökumenn. Er nú svo komið að mjótt er á mununum í fjórum efstu sætum stigakeppninnar og ekki nema eitt stig sem skilur á milli fyrsta og annars sætis. „Í dag eru fjórir-fimm keppendur sem eiga raunhæfan möguleika á að taka fyrsta sætið og má lítið út af bera hjá þeim sem eru í toppslagnum,“ segir Guðfinnur.

Formúlulið komin í hermana

Hermikappakstur nýtur vaxandi vinsælda bæði á Íslandi sem úti í heimi og er nú svo komið að hermakappakstur er meira að segja á keppnisdagatali Akstursíþróttasambands Íslands. „Þessi íþróttagrein, líkt og margar aðrar rafíþróttagreinar, hefur sótt hratt á og núna halda t.d. mörg Formúlu 1-lið einnig úti hermikappaksturs-liði,“ segir Guðfinnur og bendir á að kappakstursleikir og hermar séu orðnir svo fullkomnir í dag að upplifunin þyki nauðalík því að sitja á bak við stýrið á alvörukappakstursbíl úti á alvörukappakstursbraut.

„Í öllum meginatriðum kallar hermikappakstur á sams konar þjálfun og hæfileika og býður upp á mikla spennu, en munurinn er sá að hermikappakstur er langtum ódýrari en aðrar akstursíþróttir. Tölva, stýri og pedalar kosta varla á við eitt dekk á keppnisbíl og þarf ekki að borga fyrir bensín, viðgerðir og viðhald. Svo er hægt um vik að skjótast í stuttan kappakstur í stofusjónvarpinu eftir kvöldmat.“

Kappaksturinn í dag hefst með tímatöku kl. 21:45 og sjálf keppnin hefst kl. 22. Farnir verða 38 hringir og hægt að fylgjast með beinni útsendingu nokkurra keppenda á eftirfarandi slóðum:

Guðfinnur Þorvaldsson

Sindri Rafn Ragnarsson 

Snorri Þorvaldsson

Lokakeppnin fer fram 19. júní með 120 mínútna þolakstri á norðurhring Nürburgring.

Nánari upplýsingar má finna hjá Facebook-hóp GTS Iceland eða á vefsíðunni GTSIceland.com.

mbl.is