Yaris vinsælasti erlendi bíllinn

Toyota Yaris var söluhæsti útlendi bíllinn í Frakklandi 2018.
Toyota Yaris var söluhæsti útlendi bíllinn í Frakklandi 2018.

Í landi sem í raun er sjálfbært um bíla þykir það vegsauki að vera vinsælasti erlendi bíllinn í Frakklandi.

Hnossið fyrir árið 2018 hlaut hinn litli Toyota Yaris með 25.561 nýskráða bifreið. Skaust hann rétt upp fyrir sjöttu kynslóðar Volkswagen Polo sem seldist í 25.453 eintökum.

Polo hefur um árabil selst best erlendra bíla í Frakklandi en Yaris fór nú í 108 eintökum fleira. Í þriðja sæti varð svo Nissan Qashqai. Þess má þó geta, að dótturfélag Renault, rúmenski bílsmiðurinn Dacia, er ekki talið með til erlendra bílsmiða, heldur franskra.

Það varð Yaris til happs að dragast ekki inn í dísildeilur og síðast en ekki síst naut litli japanski bíllinn þess að vera alfarið smíðaður í Frakklandi. Áróður fyrir því að kaupa franskt í þágu fransks efnahagslífs studdi sem sagt sölu Yaris, að sögn bílaritsins Auto Plus.

mbl.is