Veður, gengi og efnahagsástand hafa áhrif

Karl Gunnlaugsson segir sölu torfæruhjóla ekki virðast eins viðkvæma fyrir …
Karl Gunnlaugsson segir sölu torfæruhjóla ekki virðast eins viðkvæma fyrir leiðinlegu veðurfari. mbl.is/​Hari

Salan hefur gengið ágætlega hjá KTM Íslandi ehf., umboðsaðila bæði KTM og Husqvarna. Virðist hjálpa að fyrirtækið selur langsamlega mest af motocross- og enduro-mótorhjólum og eins og fólkið sem hefur gaman af þannig sporti setji það síður fyrir sig ef að sumarið er blautt.

„Síðasta sumar byrjaði að rigna 10. maí og rigndi nánast sleitulaust fram til 10 águst, og það hafði greinileg áhrif á sölu á götuhjólum og svk. adventure-hjólum,“ segir Karl Gunnlaugsson eigandi og framkvæmdastjóri verslunarinnar. „Á enduró-hjóli þá þykir það aftur á móti ákjósanlegra, ef eitthvað er, að hafa smá rigningu því þá er minna ryk og hægt að ná betra gripi. Smá skúrir koma ekki að sök þegar fólk skýst eftir vinnu til að skemmta sér í Bolöldu í tvo eða þrjá tíma, og bara frískandi að finna úðann. Hins vegar er lítið gaman af því að fara t.d. í tveggja daga hringferð um Vestfirði á veglegu ferðahjóli og vera blautur allan tímann.“

Óhætt er að segja að Karl hafi veðjað á réttan hest þegar hann stofnaði KTM á Íslandi fyrir aldarfjórðungi. „Um það leyti var verið að reisa KTM í Austurríki úr gjaldþroti, með um 200 starfsmenn og 6.000 mótorhjól framleidd árlega. Í dag starfa aftur á móti 4.000 manns hjá KTM og smíða meira en 300.000 mótorhjól ár hvert. Núna er KTM orðið fjórði stærsti mótorhjólaframleiðandi heims á eftir Honda, Yamaha, og Kawasaki.“

Láta eftir sér mótorhjól þegar fjárhagurinn leyfir

Salan á bifhjólum virðist fylgja sölu á bílum, nema hvað mótorhjólamarkaðurinn er ögn lengur að taka við sér eftir niðursveiflu. Virðist þumalputtareglan að mótorhjólasala taki að glæðast um tveimur árum seinna en salan á bílum. „Við sáum þetta gerast eftir bankahrun, að fólk sló því á frest að endurnýja heimilisbílinn og byrjaði sala nýrra bíla ekki að fara af stað fyrr en um 2012, og mótorhjólasalan 2014 og 2015. Að kaupa mótorhjól er lúxus sem fólk ýtir til hliðar þangað til það er búið að koma fjárhag heimilisins í gott horf,“ útskýrir Karl og bætir við að síðasta ár hafi verið það besta í versluninni síðan 2008. „En rétt eins og á bílamarkaði fundum við fyrir samdrætti í ágúst og hefur salan í hverjum mánuði síðan þá verið minni en í sama mánuði árið á undan.“

Mótorhjólamarkaðurinn virðist því kólna nokkuð hratt þegar óvissa ríkir efnahagslífinu og bendir Karl jafnframt á að í ljósi þess hve mótorhjólamarkaðurinn sé smár þá komi breytingar á gengi hratt fram í verði. „Við eigum sáralítinn lager og flest þau mótorhjól sem við pöntum inn eru þegar seld. Veltan er ekki svo mikil að ráðlegt væri að koma upp einhvers konar gengisvörnum.“

Rafmögnuð framtíð

Gaman hefur verið að fylgjast með þróuninni í mótorhjólasmíði undanfarin ár. Framleiðendur eru duglegir við að kynna áhugaverðar nýungar og t.d. að KTM svipti árið 2018 hulunni af fullkomnum tvígengismótor með beinni innspýtingu og betri útblásturstölum. Þá virðist að í mánuði hverjum megi lesa um ný rafmagns-bifhjól sem ýmist eru þegar komin á markaðinn eða væntanleg innan skamms. Þóttu það t.d. stórmerkileg tíðindi að Harley-Davidson, sem þekkt er fyrir hávær og vígaleg motorhjól sem anga bæði af testósteróni og bensíni, tefldi fram rafmagns-mótorhjólinu LiveWire.

Karl segir það í sjálfu sér ekkert nýtt að framleiðendur geri tilraunir með rafmagns-bifhjól, en það hafi háð þróuninni bæði að rafhlöðurnar hafa verið dýrar og þróunin í rafhlöðutækni svo ör að áður en hægt var að gera hugmyndahjól að veruleika var ný og betri tækni komin.

Karl játar að hann sé svolítið íhaldssamur, og hafi sínar efasemdir um rafdrifin mótorhjól, rétt eins og hann hafði efasemdir um ágæti rafmagnsbíla – allt þar til hann fékk að reynsluaka Teslu. „Næstu fimm til tíu árum eigum við vafalaust eftir að sjá töluverðar breytingar á framboði og sölu rafmagns-mótorjóla og grunar mig að rafmagns-hjólin muni stækka markaðinn með því að laða að kaupendur sem hefðu annars ekki fjárfest í mótorhjóli.“

Er margt sem gerir rafmagns-bifjól að áhugverðum valkosti, s.s. lágur þyngdarpunktur og mikið tog. „Þá þarf ekki grískiptingu svo að auðveldara ætti að vera að læra á þessi hjól, og smíði þeirra er einfaldari þannig að reikna má með minna sliti og lægri viðgerðar- og viðhaldskostnaði,“ segir Karl en bætir við að enn sem komið er virðist rafmagns-bifhjól hafa nokkuð takmarkað drægi sem myndi gera þau óhentug til langferða. „En sem samgöngutæki innanbæjar, hvað þá í góða veðrinu á meginlandi Evrópu, ættu rafmagns-bifhjól að vera alveg tilvalin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »