Frelsi, rómantík og þægindi

Blái naglinn, húsbíll Elínar Írisar og Daða Þórs, notar vindmyllu …
Blái naglinn, húsbíll Elínar Írisar og Daða Þórs, notar vindmyllu til að framleiða rafmagn.
Hentugt er að taka fjórhjól, reiðhjól eðajafnvel aukabíl með í …
Hentugt er að taka fjórhjól, reiðhjól eðajafnvel aukabíl með í húsbílaútilegu.


Þeir sem reynt hafa væru vísir til að fullyrða að leitun sé að betri leið til að skoða landið, og jafnvel ferðast langt út í heim, en á vel útbúnum húsbíl: „Ég veit um nokkra sem ætla með húsbílinn sinn út fyrir landsteinanna í sumar; til Færeyja, Noregs og víðar, en það er bæði ódýrara og á margan hátt þægilegra að ferðast um Evrópu á húsbíl en t.d. með tjaldvagn í eftirdragi því ferjugjaldið er lægra,“ segir Elín Írís Fanndal.

Elín er formaður Félags húsbílaeigenda (www.husbill.is) og hefur notið húsbílalífstílsins með manni sínum Daða Þór Einarssyni um um áratug. Hún segir það að ferðast á húsbíl veita mikla frelsistilfinningu og einnig vera hagkvæma leið til að upplifa alls kyns ævintýri. „Á húsbíl getur maður verið alveg 100% sjálfbær ef því er að skipta og blasir við að hver nótt í húsbílnum er töluvert ódýrari en ef gist væri á hótelherbergi. Svo er líka mun ánægjulegra að njóta þeirrar nándar við náttúruna og þeirrar rómantíkur sem húsbíllinn veitir, frekar en að loka sig af inni á hóteli.“

Mikill metnaður er í starfi Félags húsbílaeigenda. Félagið var stofnað árið 1983 og meira en 450 húsbílar á skrá hjá klúbbnum í dag. „Virki kjarninn er nokkuð stór og í nýlegri hvítasunnuferð hópsins voru 104 farartæki, og samtals 250 manns,“ segir Elín og bætir við að á viðburðum félagsins sé glatt á hjalla og ekki minna gaman að njóta félagsskaparins en að upplifa náttúrufegurðina.

Helst að sturtan megi missa sín

Elín Fanndal
Elín Fanndal


En hvar á fólk að byrja, ef það vill láta drauminn um húsbíl rætast, og hver er t.d. munurinn á að eiga tjaldvagn, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíl?

Elín segir það geta verið ágætis byrjun, til að komast á bragðið, að fjárfesta í tjaldvagni eða fellihýsi, en aðbúnaðurinn sé allt annar í hjólhýsi eða húsbíl sem iðulega státa af prýðilegri aðstöðu til að matreiða og eldhúskrók, salerni, sturtu, góðu svefnplássi og nóg af geymslurými.

Auðveldara getur verið að aka húsbílnum enda ein sambyggð eining, á meðan það vefst fyrir sumum að draga húsvagn. Aftur á móti má losa húsvagninn frá bílnum, og þá skjótast á ökutækinu inn í bæi og borgir eða yfir torfærur.

Félag húsbílaeigenda er, eins og nafnið gefur til kynna, eingöngu opið húsbílaeigendum en í sumum ferðum eru aðrir velkomnir og voru t.d. nokkrir tjaldvagnar með í för á hvítasunnu. „Finna má alls kyns verð á húsbílamarkðainum og er t.d. hægt að finna prýðilega eldri húsbíla á um og yfir 1,5 milljónir króna. Sjálf erum við hjónin á Mercedez-Bens sendibíl árgerð 1989 sem var breytt í húsbíl og var hann á þessu verðbili.“

Er hægt að fara mikið hærra en það með nýjustu og stærstu húsbílunum enda sumir jafnstórir eða stærri en rútur og innréttaðir eins og lúxusíbúðir. Vestanhafs má jafnvel finna dæmi um húsbíla sem kosta í kringum eina til tvær milljónir dala og eru álíka stórir að flatarmáli og lítil íbúð.

Aðspurð hvað það er sem helst má sleppa, við val á húsbíl, og hvað fólk vill síður vera án, segir Elín að margir standi sig að því að nota ekki sturtuna. „Flestum finnst hún mega missa sín og nota í staðinn sundlaugar eða sturtuaðstöðuna á tjaldstæðum, svo að sturtan er mest notuð sem geymsla. Síðan vill fólk gjarnan meira svefnpláss en minna og í dag má finna sólarsellur á flestum húsbílum m.a. vegna þess að rafmagnið á tjaldsvæðunum getur verið fulldýrt.“

Vari sig á vindhviðum


Hvað kostar svo að eiga og reka húsbíl? Eins og aðrar bifreiðar þurfa húsbilar árlega skoðun og minnir Elín á að meðlimir í félaginu njóti góðs afsláttar af skoðunargjaldi, gasi, tjaldstæðagjaldi og ýmsu öðru því sem fylgir því að njóta landsins á húsbíl. „Hjá Frumherja fáum við skoðunina á 7.200 kr óháð stærð en annars getur skoðunargjaldið farið yfir 20.000 kr.“

Ekki má leggja húsbílnum hvar sem er og þarf oftast nær að finna honum stað á tjaldstæði yfir nótt. Vitaskuld verður að gera ráð fyrir eldsneytiskostnaðinum og segir Elín að svk. „háþekjur“, þ.e. húsbílar með upplyftu þaki sem rúmar auka svefnpláss, eyði alla jafna meira en lágþekjurnar sem taka á sig minni vind í akstri úti á þjóðvegunum. Þá verður að kaupa þar til gerð hreinsiefni fyrir vatnstank og lagnir og mælir Elín með að þrífa vatnskerfið a.m.k. tvisvar á ári en tæma tank og lagnir á milli ferða. Vitaskuld þarf tryggingar líka, og minnir Elín á að íslenskt veðurfar kalli á sérstaka aðgát þegar ferðast er á húsbi´l og þá einkum vindurinn sem þarf að varast. Tryggingarnar vernda ekki húsbílinn lengur ef honum er ekið við aðstæður þar sem vindhraðinn fer yfir 17 m/sek í hviðum.

Að sögn Elínar þarf annars ekki að hafa svo mikið fyrir húsbílnum og lítill vandi að halda honum hreinum. „Eg hugsa oft með mér þegar ég þríf húsbílinn hvað ég vildi óska að ég gæti verið svona fljót að taka til heima. Rýmið er svo smátt að það þarf ekki nema lágmarks-útbúnað í þrifin og minna en ekkert mál að taka til,“ segir hún. „Höfum við hjónin það síðan fyrir sið að fara með uppvaskið í vaskafati í aðstöðuna á tjaldsvæðinu, með sitt hvort glasið af rauðvíni, og hjálpumst að við að vaska upp og þurrka.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »