Fær nýjan Actros af fimmtu kynslóð

Birkir Hólm, forstjóri Samskipa, (t.v.) tekur við lyklum að nýju …
Birkir Hólm, forstjóri Samskipa, (t.v.) tekur við lyklum að nýju Actros 5 atvinnubílunum úr hendi Jóns Trausta Ólafssonar, framkvæmdastjóra Öskju.

Bílaumboðið Askja afhenti í vikunni Samskip nýja Mercedes-Benz Actros 5 atvinnubíla. Fleiri Actros bílar munu svo bætast við bílaflota Samskipa á næstu dögum.

Fimmta kynslóð Actros var frumsýnd í haust og fyrstu bílar framleiddir nú í júní. Þessir Actros 5 bílar sem Samskip fá eru því með þeim fyrstu í heiminum sem eru komnir í notkun.

Nýr Actros er talsvert frábrugðin forvera sínum hvað útlit varðar. Í stað hefðbundinna baksýnisspegla eru nú komnar myndavélar sem staðalbúnaður. Þær eru mikil framför hvað varðar loftmótstöðu, öryggi og meðhöndlun bílsins. Myndavélarnar auka verulega á útsýni ökumanns, auk þess að minnka loftmótsstöðu og draga þannig úr eldsneytisnotkun.

Myndavélakerfið samanstendur af tveimur myndavélum sitt hvoru megin á bílnum, og inni eru tveir 15” skjáir sem festast á gluggapóst hvoru megin.

Í tilkynningu segir að nýr Actros hafi að geyma fjölmargar nýjungar frá fyrri gerð, alls um 60 breytingar og margar hverjar eru sagðar mikið framfarastökk.  Stór hluti þessara breytinga snýr að því að gera vinnuastöðu ökumanna þægilegri, auka öryggi í umferðinni og minnka eldsneytiseyðslu.

Mælaborðið í Actros 5 samanstendur nú af 2 tölvuskjáum með viðmóti sem svipar mjög til nýjustu snjallsíma, og hægt er að nota hvort sem er Android Auto eða Apple Carplay.   Stýrið kemur úr fólksbílalínu Mercedes-Benz og þaðan er hægt að stýra skjáaðgerðum með mjög einföldum hætti.
 
„Það er okkur mikið ánægjuefni að Samskip hafi valið Actros 5 fyrir sinn rekstur.  Bílarnir eru vel búnir og munu án efa sinna sínu hlutverki vel. Sala á Mercedes-Benz vörubifreiðum hefur vaxið hér á landi að undanförnu og erum við nú með um fjórðungshlutdeild á þessum markaði, sem staðfestir að notendum líkar bílarnir vel,” segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

„Við höfum notað Mercedes-Benz vörubíla í okkar rekstur og þeir hafa reynst hagkvæmir og áreiðanlegir í rekstri, og ákváðum því að endurnýja bílana með nýjum Actros 5 sem bætir vinnuaðstöðu okkar ökumanna, eykur umferðaröryggi og minnkar kolefnisfótspor Samskipa", segir Birkir Hólm, forstjóri Samskipa.

mbl.is