Hendinni kastað til við vegmerkingar

Í London þykja merkingar á og við vegi vandaðar og …
Í London þykja merkingar á og við vegi vandaðar og skýrar. Ekkert fer milli mála. Ljósmynd / AFP

Víða á Íslandi má finna dæmi um óviðunandi vegmerkingar. Virðist það eiga bæði við um skilti og yfirborðsmerkingar að merkingarnar vanti, þær ónákvæmar eða orðnar óskýrar.

Þá virðist stundum eins og sé hreinlega ekki vandað nægilega vel til verka eða vegmerkingar látnar mæta afgangi, og t.d. skemmst að minnast Sæbrautar sem í sumar hefur verið án yfirborðsmerkinga í nokkrar vikur eftir malbikunarframkvæmdir; eða gatnamóta Frakkastígs og Laugavegs eftir nýlega breytingu á akstursstefnu, þar sem gleymdist að fjarlægja merki sem banna innakstur, svo að þegar ekið er að gatnamótunum virðast ökumenn hvorki mega beygja til hægri né vinstri á Laugavegi

Ólafur Guðmundsson umferðaröryggissérfræðingur áætlar að á liðlega helmingi gatnamóta á Íslandi sé merkingum ábótavant og skilti t.d. þannig staðsett að þau sjást illa þegar að gatnamótunum er komið, eða þá að skiltin byrgja ökumönnum sýn á umferð. Hann bendir líka á að Reykjavíkurborg hafi markað sér þá stefnu að mála ekki sebrabrautir þar sem gangandi vegfarendur mega þvera götur: „Þessi stefna á sér langa sögu og kom til af því að gerðar voru sebrabrautir yfir fjölfarnar götur með háan hámarkshraða og tvær akreinar í báðar áttir. Þar henta sebrabrautir illa og veittu þessar gangbrautir gangandi vegfarendum falskt öryggi svo að slys hlutust af. Voru þessir slysastaðir lagfærðir með því að setja upp gönguljós, brýr eða göng fyrir gangandi vegfarendur, en um leið var hætt að mála sebrabrautir þar sem þær eiga vel við, s.s. á 1+1 vegum með hámarkshraða 50 km eða undir.“

Þetta þýðir að víða er óvissa um hvar gangandi hafa forgang, og hætt við að fótgangandi eða hjólandi verði fyrir bíl eftir að hafa þverað götuna á stað þar sem hann taldi að ökutækjum væri skylt að stöðva til að hleypa honum yfir. Bendir Ólafur t.d. á að margir haldi ranglega að hraðahindranir séu gangbrautir, en svo sé ekki, og víða megi finna gönguþveranir þar sem auðvelt væri að halda að gangandi vegfarendur eigi að vera í forgangi þó að þeir séu það ekki.

Erlendir ferðamenn vita ekki hvað má

Hraðahindrun er ekki gangbraut. Á þessari mynd má sjá hraðahindrun …
Hraðahindrun er ekki gangbraut. Á þessari mynd má sjá hraðahindrun þar sem margt lætur vegfarendur halda að gangandi hafi forgang. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson


Björn Kristjánsson, sérfræðingur hjá FÍB, tekur undir að það sé óviðunandi að víða skuli vera óvissa um hvort bílar þurfi, eða þurfi ekki að stansa fyrir gangandi vegfarendum. „Ástandið er breytilegt á milli bæjarfélaga og sum þeirra eru dugleg að mála sebrabrautir, en Reykjavíkurborg kýs að nota í staðinn gönguþveranir þar sem gangandi hafa ekki forgang.“

Þá virðast dæmin sýna að ónákvæmar merkingar á þjóðvegum auki líkurnar á slysum og t.d. allt of algengt að kantlínur vanti eða að yfirborðsmerkingum sé illa haldið við svo að þær verða ógreinilegar. „Víðast hvar á Vesturlöndum virðist merkingum mun betur sinnt og því skiljanlegt að þegar erlendir ferðamenn aka um íslenska vegi viti þeir oft ekki með vissu hvað má og hvað má ekki. Á þjóðvegi sem heimamenn þekkja, og vita að þar er t.d. hættulegt að stöðva bíl úti í kanti eða taka fram úr; þar gætu erlendir gestir talið að skortur á merkingum þýddi að óhætt væri að leggja bíl í vegarkantinum eða taka fram úr í blindbeygju,“ segir Björn. „Nú eru margir tugir þúsunda erlendra ökumanna að nota vegakerfið og dugar ekki lengur að nota merkingar sem gagnast aðeins þeim sem eru kunnugir staðháttum.“

Sem dæmi um alvarlegan galla á íslenskum vegmerkingum nefnir Björn hvernig einbreiðar brýr eru merktar; yfirleitt með upphrópunarmerki á rauðum þríhyrningi og skilti sem gefur til kynna að vegur þrengist. „Íslendingar fylgja þeirri reglu að sá sem kemur fyrr að brúnni hafi forgang, en það tíðkast ekki erlendis og útlendingarnir þekkja ekki þetta fyrirkomulag. Betra væri að hafa merki sem tiltekur að bílar sem koma úr annarri áttinni hafi forgang á meðan bílar úr hinni áttinni þurfi að víkja.“

Þá grunar Björna að ónákvæmni og ósamræmi í merkingum geti skapað slæma umferðarmenningu. Ef merkingarnar eru ekki alveg skýrar læra ökumenn að reglurnar í umferðinni séu óljósar og kannski ekki ástæða til að hlýða þeim alltaf. „Þetta býr til umhverfi þar sem allir geta vænst þess einhverntíma að sjá sig knúna til að brjóta reglurnar, og við það molnar úr virðingunni fyrir umferðarlögunum og virðingunni fyrir þeim fyrirmælum sem vegmerkingarnar gefa, s.s. um hámarkshraða eða hvar leyfilegt er að leggja.“

Sjálfvirkur akstur ekki í boði

Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri, hefur bent á að óvandaðar vegmerkingar hér á landi kunni líka að standa í vegi fyrir innleiðingu sjálfakandi bíla. Hefur þegar komið í ljós að merkingarnar eru ekki nógu góðar til að stóla megi á hálfsjálfvirkan akstursbúnað sem á að auka öryggi ökumanns og farþega með því t.d. að aðstoða við að halda bíl innan akreinar. „Með framförum í tækni ættu þó vegmerkingarnar að hætta að vera hindrun og munu sjálfakandi bílar framtíðarinnar reiða sig meira á hárnákvæm staðsetningarhnit og nota 5G-kerfið til að aka með öruggum hætti óháð vegmerkingum.“

Hreinn segir reglurnar um vegmerkingar nokkuð skýrar, og bera sveitarfélögin ábyrgð á merkingum á vegum á sínu svæði, en þjóðvegir – þar með taldir sumir aðalvegir í þéttbýli – heyri undir Vegagerðina. „En reglurnar eru kannski ekki nógu stífar og eftirliti ábótavant.“

Leiðinlegast þykir Hreini að sjá lélegar yfirborðsmerkingar enda brýnt að ökumenn sjái skýrt og vel hvar má t.d. taka fram úr og hvar ekki. Merkingarnar vantar alveg á sumum stöðum, en í öðrum tilvikum voru notuð svo léleg efni að merkingarnar verða ógreinilegar með tímanum. „Það ætti helst að nota þar til gerðan massa þegar yfirborðsmerkingar eru málaðar og getur þá enst í mörg ár, en síðustu áratugi hefur verið gripið til þess ráðs sums staðar að nota málningu í staðinn, til að spara. Eftir 2008 varð síðan tekin í notkun enn ódýrari málning en áður, og rétt reynt að halda fjölförnustu þjóðvegum í horfinu yfir blásumarið. Var meira að segja reynt að spara með því að mála brotnar kantlínur, frekar en heilar.“

Hreinn líkir svona sparnaði við það að pissa í skóinn sinn og á hann erfitt með að ímynda sér að vandaðar yfirborðsmerkingar bæti miklu við kostnaðinn við það að leggja veg og halda honum við. Bæði ríki og bæjarfélög glími þó við uppsafnaðan framkvæmda- og viðhaldsvanda og ekki skrítið að ástandið sé í ólagi þegar sumir kaflar vegakerfisins eru 20, 30 og jafnvel 40 ára gamlir.

Ekki dýrt vandamál að leysa

Góðu fréttirnar eru þær að stjórnvöld þurfa ekki að finna upp hjólið, og hægt að nota lönd í Vestur- og Norður-Evrópu sem fyrirmynd í vegamerkingum. Hreinn nefnir Þjóðverja, Dani og Svía sem dæmi um þjóðir sem merkja vegi mjög vel, en Ólafur segir Hollendinga bera af og sjáist það m.a. á slysatölunum. „Þar eru t.d. málaðar sebrabrautir fyrir bæði gangandi og hjólandi vegfarendur, og sebralínurnar látnar ná upp eftir staurum svo að ekki fari framhjá neinum hvar gangbrautirnar eru. Þetta er gert þar sem gangandi og hjólandi umferð þverar akbrautir, þar með talið á umferðarljósum. Var það Hollendingum til happs að þeir hófu að skipuleggja samgöngur landsins nokkrum áratugum áður en einkabíllinn kom til sögunnar og því var strax í upphafi gert ráð fyrir gangandi og hjólandi umferð.“

Þessu tengt segir Björn einmitt aldrei hafa verið brýnna en nú að vanda til verka við vegamerkingar, þegar stefnt er að því að ýta undir það að almenningur noti reiðhjól eða tvo jafnfljóta til að fara á milli staða innanbæjar. „Þá verður einfaldlega að hafa merkingarnar skýrari svo fólk t.d. viti hvað er gangbraut og hvað ekki. Gæti varla verið svo flókið eða kostnaðarsamt að ganga frá öllum lausum endum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: