Flugbíllinn vokti í mínútu

Flugbíll NEC vokar við frumsýningu hans í Japan.
Flugbíll NEC vokar við frumsýningu hans í Japan.

Japanski raftækjaframleiðandinn NEC Corporation sýndi í gær frumgerð flugbíls sem vokti í um eina mínútu við athöfnina.

Bíllinn er ekki stór í sniðum en hann er búinn fjórum láréttum þyrlum og vokti í allt að þriggja metra hæð yfir jörðu.

Atburður þessi átti sér stað í borginni Chiba austur af Tókýó. Bíllinn er hugsaður til flutninga án þess að flugmaður sé um borð, þ.e. hann sjálffljúgi, að sögn talsmanna NEC.

Af hálfu japanskra yfirvalda er það markmiðið að fljúgandi farartæki sem þetta verði tilbúin til almennrar notkunar frá og með árinu 2023. Í fyrstu verði þau brúkuð til vöruflutninga en stækki og þróist til fólksflutninga þegar nær dregur árinu 2030.

mbl.is