Langt að bíða eftir hreinum rafbíl

Toyota CH-R rafbíllinn á sýningunni í Sjanghæ í Kína í …
Toyota CH-R rafbíllinn á sýningunni í Sjanghæ í Kína í vor, en þar gengur hann undir heitinu Izoa.

Toyota fer sér hægt á sviði hreinna rafbíla og þeir tveir fyrstu sem boðaðir höfða tæpast til almennings því þar er um að ræða tvo sendibíla.

Það var á bílasýningunni í Genf í mars sl. sem Toyota sagðist vera að snúa sér að þróun og smíði hreinna rafbíla. Myndu þeir koma á götuna í Evrópu árið 2021. Fylgdi fréttinni að einn þeirra yrðu Lexus.

Nú hefur Toyota skýrt þessi áform nánar og kemur þá í ljós að ekki er um fjölskyldubíla að ræða, heldur tvo sendibíla. Verða þeir þróaðir og smíðaðir hjá franska bílsmíðasamsteypunni PSA Peugeot-Citroën. Hefur Toyota átt náið samstarf við hana um smíði sendibíla.

Annar þeirra er nú boðaður þegar árið 2020 og mun þar vera um að ræða rafútgáfu af hinum meðalstóra sendibíl Proace. Rýmið verður hið sama og í Proace dísilbílunum  þrátt fyrir rafhlöðurnar. Aftur á móti minnkar hámarks arðfarmur bílsins um 200 kíló vegna geymanna.  

Árið 2021 er svo seinni sendibíllinn, Proace City, boðaður á markað og verður það  um að ræða afbrigði af Peugeot Partner/Citroen Berlingo.

Af þessu verður það helst ráðið að ekki sé að vænta hreinan rafdrifinn fólksbíl frá Toyota fyrr en  í fyrsta lagi 2022. Fræðilega gæti það þó orðið fyrr því rafdrifinn Toyota C-HR mun vera klár til framleiðslu í Kína. Sala á honum þar hefst á næsta ári.

mbl.is