Dýrgripur finnst í hlöðu

Hlöðubíllinn. Lamborghini Miura P400S.
Hlöðubíllinn. Lamborghini Miura P400S.

Tiltölulega vel með farinn og lítt notaður Lamborghini Miura P400S „fannst í gamalli hlöðu“ eins sagt er um gleymda bíla sem koma óvænt fram í dagsljósið. Talið er að hann geti verið allt að 1,2milljlóna dollara virði, um 147 milljónir króna. 

Lamborghini Miura P400S, einnig þekktur sem Miura S, var frumsýndur á bílasýningu í Tórínó á Ítalíu í nóvember 1968. Reyndar hafði upphaflegur undirvagn verið sýndur fjölmiðlum þremur árum fyrr.

Þetta nýfundna eintak var með undirvagnsnúmer 4245 og komst hann í eigu áhugakappakstursmannsins Hans-Peter Weber árið 1974. Þegar hann lést árið 2015 var bílnum stungið inn í hlöðu vinar hans í Svartaskógi í Þýskalandi. Þar stóð hann svo þar til nýverið.

Á kílómetrateljaranum segir að bíl þessum hafi aðeins verið ekið 10.032 kílómetra. Hann verður boðinn falur hjá uppboðshaldaranum RM Sotheby’s en ekki liggur fyrir hvenær það fer fram. Sérfróðir telja að hann kunni að verða sleginn á um 1,2 milljónir dollara.

mbl.is