Öflugasti jeppi heims er tvinnbíll

Porsche Cayenne tvinnbíllinn er afar öflugur.
Porsche Cayenne tvinnbíllinn er afar öflugur.

Kominn er fram á sjónarsviðið nýr konungur ofurjeppanna, sá öflugasti sem sögur fara af. Lamborghini Urus hefur verið velt úr sessi af áskoranda innan úr Volkswagen-samsteypunni.

Hér er átt við Porsche Cayenne Turbo S E-Hybrid jeppann sem hefur að geyma 680 hestafla vél undir húddinu. Cayenne flaggskipið er svo rammt að afli og upptaki að það kemst í hundraðið úr kyrrstöðu á aðeins 3,8 sekúndum og hámarkshraðinn er stilltur á 300 km/klst.

Staðalbúnaður er allur af því besta sem Porsche býður upp á, en bíllinn er með þeim hraðskreiðustu í Porsche-fjölskyldunni.  

Áhugavert er að Turbo S E-Hybrid bíllinn mun geta farið 40 kílómetra vegalengd á allt að 135 km hraða  á rafmótornum einum, þ.e. án þess að brúka svo mikið sem einn dropa af bensíni. Rafgeymir bílsins er 14,1 kílóvattstunda og má hlaða það að fullu á tæplega hálfri þriðju klukkustund með 7,2 kílóvatta riðstraumshlöðu.

Vélin, sem er fjögurra lítra V8-vél með tveimur forþjöppum, skilar 548 hestöflum. Það sem upp á vantar er 135 hestöfl sem rafrásin býður upp á, en með því er heildarafl bílsins 680 hestöfl.

mbl.is