Á 200 km/klst. í hrauninu

„Það verður bara asnalegt að keyra bílinn hratt á almennum vegi,“ segir Benedikt Eyjólfsson, eigandi Bílabúðar Benna, um útrásina sem fæst af því að keyra hratt í Kvartmílubrautinni en hann er sannfærður um forvarnagildi þess að leyfa ökumönnum að keyra hratt við aðstæður á borð við þær sem eru í boði í Kapelluhrauni. 

Í vikunni hefur fólki gefist kostur á að prufa nýjustu Porsche-bílana í brautinni og fá kennslu hjá finnskum ökuþór.

Við á mbl.is fengum að sitja í með Benna í nýrri 450 hestafla Carreru 2S sem óhætt er að segja að hafi verið eftirminnileg lífsreynsla en á beinu köflum brautarinnar vorum við á nálægt 200 kílómetra hraða. Það er ekki að ástæðulausu að bíllinn er búinn svokölluðum „G-Force-mæli“ sem sýnir þyngdarkraftana sem verka á þá sem sitja í bílnum en hann nær 100 km/klst. á 3,4 sekúndum.

Almenningi hefur gefist kostur á að prufa bílana sem alls eru sex talsins og eru hluti af Porsche Roadshow þýska bílaframleiðandans sem ferðast á milli landa.

Í myndskeiðinu er rætt við Benna og sýnt frá bílferðinni ógleymanlegu. 

mbl.is