Hyundai Ioniq búinn góðri árekstrarvörn

Hyundai Ioniq.
Hyundai Ioniq.

Allar gerðir nýjustu gerða rafknúinna Ioniq frá Hyundai eru á meðal þeirra öruggustu í sínum flokki samkvæmt árekstrarprófum evrópsku öryggisstofnunarinnar EuroNCAP sem gaf þeim fullt hús stiga fyrir gott öryggi í þágu barna og fullorðinna bílfarþega ásamt því sem hönnun Ioniq tekur gott mið af öryggi gangandi farþega.

Þá gaf EuroNCAP Ioniq einnig háa einkunn fyrir góðan staðalöryggisbúnað sem „SmartSense“ hefur upp á að bjóða og það góða úrval aukaöryggisbúnaðar sem kaupendur geta bætt við SmartSense við kaup á nýja bílnum.

„Hyundai Ioniq er fyrsti bíllinn á markaðnum sem boðinn var í þremur útgáfum hvað orkugjafa varðar. Hægt er að fá Ioniq sem 100% rafbíl, tengiltvinnbíl bensínvélar og rafmótors og loks sem hefðbundinn tvinnbíl. Ioniq þykir hafa sett nýjar viðmiðanir þegar kemur að öryggi fullorðinna og ungra farþega, gangandi vegfarenda og hvað varðar öryggisaðstoð í öllum matsviðmiðum EuroNCAP og ekki aðeins í sínum flokki heldur einnig þegar kemur að samanburði við dýrari og stærri bíla,“ segir í tilkynningu.

Endurspeglar áherslur Hyundai

Að mati Hyundai þykir góð frammistaða Ioniq í nýjustu árekstraprófununum endurspegla ríka áherslu fyrirtækisins á gott öryggi viðskiptavina sinna án tillits til þess í hvaða verðflokki bílarnir eru. Gott öryggi bíla í lægstu verðflokkunum sé ekki undanskilið áherslu Hyundai. Að sögn Andreas-Christoph Hofmann, aðstoðarframkvæmdastjóra markaðsmála og framleiðslu hjá Hyundai Motor Europe, er Ioniq mjög nútímalegur bíll sem búinn er öllum helsta búnaði sem viðskiptavinir þarfnast. Gott öryggi bílsins grundvallast m.a. á léttum en stífum undirvagni auk hástyrktra stálblanda sem gleypa og eyða út höggum við árekstur til verdar farþegum og gangandi vegfarendum. Þá er Ioniq einnig búinn sjö öryggisloftpúðum, þar á meðal loftpúða til að verja hné ökumanns.

Úrval öryggisbúnaðar

En í forvarnarskyni til að koma í veg fyrir óhapp er New Ioniq búinn SmartSense öryggiskerfi Hyundai, þar með talið tækni sem vaktar umhverfið og bregst við hugsanlegri hættu. Árekstrarvörnin að framan varar ökumann við neyðarástandi og virkjar hemlakerfi bílsins sjálfkrafa þegar þörf er á, t.d. þegar annað ökutæki, gangandi vegfarandi eða hjólreiðamaður birtist skyndilega framan við bílinn. Þá er einnig hægt að fá Ioniq með akreinaaðstoð, sem kemur í veg fyrir að bíllinn fari óvart yfir merkingar akreina, auk blindhornsviðvörunar og árekstraviðvörunar að aftan.

mbl.is