„Tímamótabíll í farsælli sendibílasögu“

Benný segir fyrirtækjalausnir Brimborgar bæta yfirsýn stjórnenda og hjálpa þeim …
Benný segir fyrirtækjalausnir Brimborgar bæta yfirsýn stjórnenda og hjálpa þeim að finna leiðir til að spara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margir landsmenn hafa tengst franska bílaframleiðandanum Citroën sterkum böndum; og ekki að furða enda fyrirtækið þekkt fyrir að hanna og smíða glæsileg ökutæki sem þjóna hlutverki sínu vel.

Þannig hafa margir bílar Citroën markað djúp spor í bílasöguna s.s. 2CV, eða „Bragginn“ eins og Íslendingar kalla hann, tímamótabíllinn DS frá 7. áratugnum og CX frá þeim áttunda. Alltaf virðast þeir frönsku tilbúnir að hugsa stórt, finna frumlegar lausnir og framleiða bíla sem hæfa allstóran hóp fólks beint í hjartastað.

Benný Ósk Harðardóttir hjá Brimborg segir það líka eiga við um atvinnubíla Citroën, rétt eins og fólksbílana, að þeir sem kynnast þeim á annað borð halda lengi tryggð við merkið. Benný er sölustjóri Citroën og tók fyrir skemmstu við fyrstu eintökunum af nýrri kynslóð Berlingo-sendibílsins. Hún segir nýja Citroën Berlingo vera tímamótabíl í farsælli sendibílasögu Citroën. „Hann hlaut verðlaunin sendibíll ársins 2019 á 100 ára afmæli Citroën, sem segir allt um framúrskarandi gæði þessara bíla,“ segir Benný og bætir við að Brimborg bjóði nú fimm ára ábyrgð á öllum nýskráðum sendibílum frá Citroën.

Citroën sendibílar hafa verið vinsælir á Íslandi til fjöldamargra ára. Segir Benný að áreiðanleiki Berlingo og góð þjónusta Brimborgar hafi þar sitt að segja en franski bílasmiðurinn hafi líka puttann alltaf á púlsinum, og við hönnun á nýjum Citroën Berlingo-sendibíl verið hugað vandlega að öllum þörfum fagmanna. „Citroën Berlingo má fá beinskiptan með öflugri 100 hestafla vél eða með átta þrepa sjálfskiptingu með öflugri 130 hestafla vél. Þá er hann einnig í boði í tveimur útgáfum: Classic og ríkulega útbúinni Professional-útgáfu, og í tveim lengdum.“

Hlaðinn öryggisbúnaði

Benný á ekki í vanda með að telja upp fleiri kosti Berlingo: „Nýr Berlingo van býður til að mynda upp á bjart og þægilegt farþegarými, háa sætisstöðu, gott aðgengi og frábæra vinnuaðstöðu. Hann er með geymsluhólf undir framsæti, fyrir ofan ökumann og í mælaborði fyrir framan ökumann. Þá fæst Berlingo van með rennihurðum á báðum hliðum, bæði þriggja og tveggja sæta, og er með 180° opnun á afturhurðum. Í nýju kynslóðinni eru tuttugu mismunandi akstursöryggisþættir og má þar nefna „surround vision“ sem er tækni sem sýnir ökumanni hvað er að gerast í kringum bíllinn og ofhleðsluviðvörun sem lætur vita ef búið er að setja of þungan farm í bílinn.“

Til viðbótar við stóru stökkin nefnir Benný að hönnun Berlingo sé úthugsuð. Með svk. „Extenso Cab“ er t.d. hægt að fella farþegasætin niður til að flytja lengri hluti. „Þá má stilla sæti ökumans á marga vegu þannig að hann hefur þægilega skrifstofu að vinna í á leið sinni milli verkefna.“

Benný segir að góða sölu Berlingo megi líka þakka þeirri góðu þjónustu sem Brimborg veitir fyrirtækjum. Fyrirtækjalausnir Brimborgar feli m.a. í sér ráðgjöf sem tryggir hagkvæmar, sérsniðnar heildarlausnir í bílamálum. „Fyrirtæki fá allt á einum stað í Brimborg. Fjölbreytt úrval nýrra og notaðra fólks- og sendibíla, dekkjaþjónustu, hraðþjónustu, bílaviðgerðir, varahluti og í samstarfi við Thrifty bílaleigu er hægt að leigja fólksbíla í skammtíma- og langtímaleigu ásamt því að geta leigt sendibíla til að brúa álagstoppa.“

Með nánar gætur á flotanum

Auk þess bjóða Fyrirtækjalausnir Brimborgar upp á flotastýringu og flotarekstrarþjónustu fyrir fyrirtæki. „Flotastjórinn – Brimborg Fleet Manager – aðstoðar stjórnendur í fyrirtækjum við að fá betri yfirsýn yfir bílaflotann, einfaldar starf stjórnenda og þeirra sem stýra flotanum, gerir þeim kleift að lækka rekstrarkostnað flotans og hámarka nýtingu hans. Auk þess eykst rekstraröryggi og nýting bílaflotans verður betri. Einnig hafa viðskiptavinir í Flotastjóranum getað bætt þjónustu við sína viðskiptavini með auknu eftirliti en Flotastjórinn býður upp rafræna útdeilingu á bílum svo fátt eitt sé nefnt.“

Sem dæmi um notkunarmöguleika þessa kerfis er hægt að sjá staðsetningu ökutækja í rauntíma sem hjálpar t.d. til að ná í þann starfsmann sem ferðast þarf stysta vegalengd ef að nýtt verkefni eða pöntun berst. „Þannig getur fyrirtæki iðnaðarmanna sem þjónusta tryggingafélag t.d. fengið boð um vatnsleka og séð á augabragði að einn af pípurunum þeirra er stutt frá og getur farið hratt á staðinn til að lágmarka tjónið,“ segir Benný og bætir við að flotarekstrarþjónusta Brimborgar felist í rafrænu eftirliti og reglulegri ástandsskoðun bílaflota fyrirtækja á hagkvæman og skjótan hátt. Þetta tvennt lækki tjónatíðni hjá fyrirtækjum og hækki endursöluverð.

Benný segir að með góðri flotastjórnun geti fyrirtæki sparað sér umtalsverðar fjárhæðir. „Í dagsins amstri verða bílamálin oft útundan. Sérfræðingar fyrirtækjalausna Brimborgar eru góðir í að stýra flotum og því velja æ fleiri fyrirtæki að láta Brimborg reka flotann fyrir sig,“ útskýrir hún. „Með hjálp þessa búnaðar má t.d. greina eldsneytisnotkun og þannig t.d. koma fyrr auga á hvort það borgar sig að endurnýja flotann til að draga úr eldsneytiskostnaði.“ ai@mbl.is

Citroën Berlingo batnar með hverri kynslóðinni og á marga aðdáendur.
Citroën Berlingo batnar með hverri kynslóðinni og á marga aðdáendur. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: