Vörubíll í stað veghefils

Veghefill verður alltaf ómissandi í ákveðnum verkefnum.
Veghefill verður alltaf ómissandi í ákveðnum verkefnum.

Þó að veghefillinn hafi átt undir högg að sækja á undanförnum árum og önnur tæki hafi komið í hans stað verður hann alltaf ómissandi í ákveðnum verkefnum enda ekkert tæki jafnfjölhæft í vegagerð. Þetta segir Ólafur Kristinn Kristjánsson, forstöðumaður rekstrardeildar Vegagerðarinnar.

„Vegheflum á Íslandi hefur vissulega fækkað en mér finnst ólíklegt að þeir hverfi alveg því það eru fá verkfæri sem eru jafnfjölhæf í vegagerð og veghefillinn. Veghefill getur til að mynda rifið upp fastar klæðningar, endurmótað vegaxlir og lagað kantlínur, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Ólafur Kristinn, spurður út í stöðu veghefilsins í dag. Önnur tæki hafa í auknum mæli verið að seilast inn á verksvið hans. Þannig sjá núorðið þriggja eða fjögurra öxla vörubílar með tveimur tönnum og kviðtönn nær eingöngu um snjómoksturinn á aðalleiðum Vegagerðarinnar.

„Með auknum kröfum um hraða og tíðari snjómokstur hefur vörubílinn að miklu leyti komið í staðinn fyrir veghefilinn. Þessi þróun byrjaði upp úr 1970 og hefur verið í stöðugum vexti enda mokar veghefill ekki snjó nema á 14-20 km hraða á klst. en vörubíll getur mokað á 50-70 km hraða á klst. Það er því mikill afkastamunur á þessum tækjum. Bílarnir ljúka snjómokstrinum miklu fyrr. Þessir bílar eru einnig með dreifara sem getur dreift salti eða sandi á vegina. Hins vegar, vegheflinum til varnar, þá getur hann mokað mun breiðara svæði í einni ferð. Eins þegar allt er komið í óefni og snjódýptin orðin veruleg þarf að ræsa út veghefil því hann og snjóblásari eru einu tækin sem ráða við virkilega erfið verkefni eins og t.d mokstur eftir snjóflóð,“ segir Ólafur og heldur áfram „Vegheflar eru mikið notaðir til þess viðhalda malarvegum en vissulega hefur malarvegum farið fækkandi svo að þeim verkefnum hefur fækkað. Síðast en ekki síst er veghefillinn algjörlega ómissandi þegar verið er að ganga frá vegi fyrir klæðningu eða malbik því það er ekkert annað tæki sem getur jafnað í lokahæð undir klæðningu.“

Á seinni hluta síðustu aldar voru vegheflar í eigu Vegagerðarinnar um 70 talsins þegar mest var en eru 22 í dag enda hefur tækjaeign Vegagerðarinnar minnkað mikið með auknum útboðum. „Meðalnotkun síðustu ára á þessum 20 heflum sem eru í reglulegri notkun hefur verið 600 klst. á ári. Þessir heflar, sem eru dreifðir um landið, eru fyrst og fremst að þjónusta malarvegi en fara í vetrarþjónustu þegar þörf er á,“ segir Ólafur. Hann ítrekar að auðvitað séu fleiri heflar á landinu en eingöngu þeir sem voru og eru í eigu Vegagerðarinnar, enda ómissandi tæki þegar verið er að gera nýja vegi, plön og flugvelli. „Vegagerðin selur eldri tæki frá sér og þannig hafa einhverjir af heflum Vegagerðarinnar lent hjá verktökum og jafnvel verið seldir áfram úr landi eins og gengur. Þessir heflar sem voru hvað mest notaðir á árum áður voru orðnir útkeyrðir og hafa líklegra lent í brotajárni.“

Endurnýjun á vegheflum landsins er ekki hröð enda um mjög dýr tæki að ræða. Nýjustu heflarnir eru líka töluvert breyttir frá því sem áður var. Þannig er til að mynda ekkert stýri lengur í þeim heldur einungis tveir rafmagnsstýrðir pinnar sitthvoru megin við ökumannssætið. Eins eru vélarnar orðnar hálfsjálfvirkar og GPS-búnaður sér um að allt sé unnið nákvæmlega rétt. Þó að stærðin á tækjunum sé svipuð er allur búnaður orðinn mun meðfærilegri og liprari. Ólafur játar þó að það sé viss rómantík yfir eldri gerðunum, en sjálfur á hann góðar minningar frá þeim tíma þegar hann var hefilstjóri hjá Vegagerðinni. „Vegheflar eru dásamleg verkfæri og mjög skemmtilegt að vera uppi á fjallvegi í friði og ró að laga til vegi með lífríkið allt um kring“.

Veghefill getur rifið upp fastar klæðningar.
Veghefill getur rifið upp fastar klæðningar.
Vegheflar eru enn í notkun þótt vörubílar komi oftar en …
Vegheflar eru enn í notkun þótt vörubílar komi oftar en ekki í stað þeirra.
Vegheflar eru enn í notkun þótt vörubílar komi oftar en …
Vegheflar eru enn í notkun þótt vörubílar komi oftar en ekki í stað þeirra.
Ólafur Kristinn Kristjánsson
Ólafur Kristinn Kristjánsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: