Borgararnir njósni um mengunarvalda

Rafbíl stungið í samband á kynningu í London
Rafbíl stungið í samband á kynningu í London AFP

Bresk hugveita að nafni Bright Blue hefur viðrað þá frumlegu hugmynd að borgararnir njósni hver um annan til að afhjúpa og sekta þá sem skilja bíla eftir í lausagangi.

Lagt er til að almenningur taki hátterni af þessu tagi upp með ljósmyndavélum eða snjallsímum, sendi svo afraksturinn til yfirvalda og njóti ávaxta erfiðis síns með því að fá 25% sektarinnar í sinn vasa.

Bright Blue lýsir sjálfri sér sem „þrýstihópi frjálslyndrar íhaldssemi“. Hún segir kveikjuna að þessum tillögum komna frá New York. Þar í borg sé ökumönnum strætisvagna og vörubíla hætt við sektum láti þeir vélar kyrrstæðra ökutækja sinna vera í gangi á almannafæri lengur en þrjár mínútur. Við skóla sé tíminn enn styttri eða aðeins mínúta.

Bright Blue vill að reglurnar gildi um öll farartæki, fólksbíla jafnt sem strætisvagna og vörubíla. Sektin að frádreginni umbun uppljóstrarans gangi síðan til að fjármagna aðgerðir til að auka loftgæði í viðkomandi þéttbýli. Hugveitan segir einnig að skynsamlegt væri að lækka hámarkshraða í þéttbýli niður í 30 km úr 50 og undanskilja lítt mengandi eða mengunarlaus farartæki virðisaukaskatti. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: