Áfram seinkar komu AMG One

Lewis Hamilton á ferð á þróunareintaki nýja Mercedes AMG-bílsins.
Lewis Hamilton á ferð á þróunareintaki nýja Mercedes AMG-bílsins.

Enn á ný tefst boðaði ofurbíllinn Mercedes-AMG One og mun meginskýringin sú að verkfræðingar bílsmiðsins glími þrálátlega við að gera vél bílsins ökufæra en hún er afleidd af vél formúlu-1 bíla Mercedes.

Þýska bílablaðið Auto Motor und Sport sagði í síðustu viku að því hefði verið frestað til ársins 2021 að bíllinn færi í framleiðslu, en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir því að hann kæmi á götuna í ár, 2019.

Þróun nýrra bíla gengur sjaldnast þrautalaust fyrir sig en til að mynda lýsti AMG-stjórinn Tobias Mörs því yfir í október sl. að fresta þyrfti komu bílsins þar til 2020, sem nú hefur tíminn lengst enn frekar.

Fyrir utan glímuna við að laga formúluvélina að þörfum götubíla hafa ný vandamál komið upp vegna nýrra og stífra mengunarviðmiða WLTP-reglnanna, sem koma til framkvæmda 1. september næstkomandi, er fyrri vinna verkfræðinganna að engu orðin.

AMG One-ofurbíllinn verður búinn 1,6 lítra V6-bensínvél og rafmagns aflrás formúlubíls Mercedes-liðsins. Er hann var fyrst kynntur til sögunnar hét Mercedes því að brunavélin og fjórir rafmótorar AMG One myndu skila á annað þúsund hestöflum. Snúningshraði vélarinnar yrði takmarkaður við 11.000 snúninga.

Meginhindrunin sem yfirstíga þarf er að keppnisvél formúlubíla þarf að forhita áður en hún er gagnsett, sem er ógerlegt fyrir götubíla. Þá er það sérstakur höfuðverkur hóps verkfræðinga að þróa fjölþættar útblástursgreinar til að standast nýju reglurnar um losun gróðurhúsalofts. Hefur Auto Motor und Sport eftir innanbúðarmanni hjá AMG, sportbíladeild Mercedes, að verkfræðingar bílsmiðsins bæði í ofurvéladeildinni í Englandi og hjá AMG í Þýskalandi hafi vanmetið viðfangsefni sitt í upphafi og kröfur til vélarinnar.

Aðeins 275 eintök verða smíðuð af AMG One-bílnum og er reiknað með að kaupverðið verði kringum 420 milljónir íslenskra króna.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »