Ryðið getur verið fljótt að láta á sér kræla

Smári á verkstæðinu með Línu Eydísi dóttur sinni. Þegar bíll …
Smári á verkstæðinu með Línu Eydísi dóttur sinni. Þegar bíll er ryðvarinn með Prolan þarf að þurrka hann vel og hita, og tekur einn til tvo daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenskar aðstæður eru ekki beinlínis til þess fallnar að láta bíla endast lengi. Vætan og seltan smýgur inn í allar glufur og vegirnir ekki þeir hreinustu í Evrópu svo að tjara, sandur og möl mæða á öllum yfirborðsflötum.

Smári Hólm Kristófersson rekur samnefnt ryðvarnarverkstæði við Rauðhellu í Hafnarfirði og segir hann að þó svo að þeir bílar sem fluttir eru inn til landsins fái einhverja ryðvörn veiti hún takmarkaða vernd. „Stór hluti kramsins í bílnum er ekki ryðvarinn, og geta partar eins og burðarvirki, hásingar, olíupanna, bremsu- og bensínrör farið að láta á sjá á skömmum tíma – og miklu fyrr en vart verður við skemmdir á ytra byrði bílsins,“ útskýrir hann.

Að sögn Smára má fara ýmsar leiðir til að verja bílinn betur, með efnum sem hafa ólíka eiginleika og endast misvel. Hann segir að það að fjárfesta í góðri ryðvörn geti sparað bíleigendum háar fjárhæðir og komi fólki oft á óvart hversu fljótt ryð og aðrar skemmdir koma fram í nýjum bílum. „Eftir eitt ár má t.d. iðulega finna merki um ryðskemmdir á bremsudælum og við suður. Eftir tvö ár byrjar málning að flagna af grindinni, og eftir fimm ár er farið að sjá töluvert á undirvagni flestra bíla. Getur annars vel smíðaður bíll verið orðinn ónýtur af völdum ryðs á aðeins tíu árum.“

En er það ekki í lagi að bílar láti á sjá, núna þegar mörg umboð veita fimm ára og jafnvel sjö ára ábyrgð á nýjum bílum? Myndi það ekki falla undir ábyrgðina ef ryðskemmdir valda því að skipta þarf um einhverja parta? „Þegar rýnt er í smáa letrið nær sú ábyrgð ekki yfir allan bílinn og margt af því sem selta, tjara og sandur geta skemmt ekki tiltekið í ábyrgðarskilmálunum,“ upplýsir Smári.

Þurfa að ná bílnum heitum

Á verkstæði sínu notar Smári undraefnið Prolan sem bera má á hér um bil alla fleti í bílnum til að veita langvarandi vernd gegn ryði. Prolan var upphaflega þróað til notkunar sem sleipiefni fyrir vélar í matvælaiðnaði, reyndist síðan hafa góða ryðverjandi eiginleika, og að sögn Smára jafnvel hægt að nota Prolan sem bón ef rétt er með það farið. Vanda þarf til verka þegar efnið er borið á undirvagn ökutækis til að tryggja að það smjúgi inn í allar glufur og skilrúm. „Við þurrkum bílinn vel og hitum upp í 20-22°C. Þá fer hann upp á lyftuna og fjarlægjum við hlífar og pönnur úr plasti svo að við komumst vel að öllum pörtum bílsins,“ segir Smári og útskýrir að ástæða þess að bíllinn þurfi að vera heitur er að rétt eins og smjör harðni Prolan í kulda og þá er erfiðara að bera efnið rétt á.

Eigandinn fær bílinn sinn aftur í hendurnar að einum eða tveimur dögum liðnum og mælir Smári með að ryðvarnarverkstæðið sé heimsótt aftur eftir 8-12 mánuði. Er bíllinn þá skoðaður í þaula, skimað eftir ummerkjum um skemmdir, og bætt við Prolan-húðunina eins og þurfa þykir. Eftir það er óhætt að 2-3 ár líði fram að næstu heimsókn, svo 4 ár og 6. Fyrsta og stærsta heimsóknin kostar um og yfir 100.000 kr. en hver heimsókn eftir það nokkra tugþúsundkalla. „Til að setja það í samhengi þá er algengt að það kosti 70-80.000 kr. að skipta um ryðgað áfyllingarrör og vel sloppið að endurnýja bremsurör fyrir 50-60.000 kr.,“ segir Smári og lætur það fljóta með að viðskiptavinir hafi oft á orði hvað bílarnir þeirra láti lítið á sjá eftir margra ára notkun. „Einn þeirra hringdi í mig, var mikið niðri fyrir, og spurði hvað í ósköpun ég hefði gert við bílinn hans. Ég hélt að eitthvað alvarlegt hafði farið úrskeiðis, og reyndi að fá á hreint hvað væri að, en þá hafði hann lagt bílnum sínum hjá öðrum jafngömlum bíl sömu tegundar og var greinilegt hvað hinn bíllinn var mikið verr farinn.“

Þá nefnir Smári, til gamans, að sumar vörur Prolan megi nota með sama hætti og gamla góða Mjallar-bónið, og til að ryðhreinsa, ryðverja og fegra alls kyns búnað og tæki. Efnið leysi t.d. upp ryðbletti í lakki og hressi við upplitaða plastlista svo þeir fá aftur dökkan og fallegan lit, og þar sem nota má Prolan í matvælaiðnaði þá sé upplagt að bera efnið á grillið úti á palli svo að það ryðgi síður.

Ryðskemmdir á undirvagni nýlegs bíls. Er samt ekki orðið of …
Ryðskemmdir á undirvagni nýlegs bíls. Er samt ekki orðið of seint að ryðverja þennan, þó hann hefði mátt koma fyrr inn á verkstæðið. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: