Andaði að sér hreinum útblæstri

Mireia Belmonte hleypur á bretti inni í kúlunni og fær …
Mireia Belmonte hleypur á bretti inni í kúlunni og fær útblastur Hyundaibílsins í fangið.

Ólympíumethafinn, Evrópumeistarinn og heimsmeistari Spánverja í sundi, Mireia Belmonte, veit að rafknúni vetnisbíllinn Hyundai Nexo sleppir aðeins hreinni vatnsgufu og 99,9% súrefni út um útblástursrörið.

Þetta sýndi hún á dögunum þegar hún æfði sig á hlaupabretti í lokaðri plastkúlu sem tengd var púströrinu frá Nexo.

Belmonte er einn sendiherra Hyundai vörumerkisins og var um að ræða gerð nýrrar auglýsingar til að vekja athygli á tækni Nexo sem er fyrsti rafknúni vetnisbíllinn á Spánarmarkaði. Vatnsgufan er tandurhrein og súrefnið sömuleiðis, hvort tveggja hreinna en andrúmsloftið er að jafnaði í þéttbýli.

Á æfingunni var bílvél Nexo í gangi og slanga tengd frá púströrinu inn í plastkúluna þar sem Belmonte æfði á hlaupabretti og andaði að sér andrúmsloftinu frá útblástursrörinu. Hún segir að uppástunga Hyundai um æfinguna hefði komið sér mjög á óvart og raunar þótt hún fáránleg í byrjun, en á sama tíma spennandi. „Ég get sagt núna eftir reynsluna að þetta er eitt magnaðasta verkefni sem ég hef tekið þátt í. Að sýna áhrifin af því að anda að sér beinni losun frá Hyundai Nexo, þ.e. vatnsgufu og súrefni, var ótrúleg áskorun sem ég er stolt af að hafa tekið þátt í,“ sagði Belmonte að verkefni loknu sem gaf ákveðna innsýn í hversu miklu vetnistæknin getur skilað til bættra loftslagsmála í heiminum.

Hyundai Nexo er önnur kynslóð framleiðandans á rafknúnum vetnisbíl fyrir almennan markað, en hann leysti af hólmi iX35 í lok síðasta árs. Nexo dregur nálægt 600 km á vetnistankinum sem er svipað og margir nýjustu bensín- eða dísilbíla í dag. Aflrás NEXO er þannig að efnarafall umbreytir vetni af tankinum í rafmagn sem hlaðið er á rafhlöðu og rafmótor bílsins. Bíllinn er því að fullu rafdrifinn. Einungis tekur 3-4 mínútur að fylla vetnistankinn, eða svipaðan tíma og tekur að fylla á bensín- eða dísiltank hefðbundinna fólksbíla. Ekki þarf að stinga Nexo í samband við rafmagn til að hlaða rafhlöðu bílsins.

mbl.is