Setti hraðamet rafknúinna vetnisbíla

Metbílarnir á saltsteppunni í Bonneville. Hyundai Nexo til hægri og …
Metbílarnir á saltsteppunni í Bonneville. Hyundai Nexo til hægri og Hyundai Sonata Hybrid til vinstri.

Sérstök tilraunaútgáfa Hyundai á rafknúna vetnisbílnum Nexo setti í vikunni hraðamet í sínum flokki á saltsteppunum við Bonneville í Utahríki í Bandaríkjunum.

Ökumaður þróunardeildar fyrirtækisins í Bandaríkjunum, Dean Schlingmann, náði 170,8 km hraða á Nexo. Við sama tækifæri náði Schlingmann hraðameti undir stýri á tilraunaútgáfu nýs Hyundai Sonata Hybrid þegar bíllinn náði 265 km hraða, sem er hraðamet í flokki tvinnbíla. Bæði metin hafa verið staðfest af  Alþjóðaakstursíþróttasambandinu FIA.

Báðir tilraunabílarnir voru útbúnir og prófaðir hjá tæknisetri Hyundai í Bandaríkjunum og Hyunday Motor Company í S-Kóreu. Þeir voru sérstaklega útbúnir vegna tilraunarinnar, svo sem með sérstyrktu öryggisbúri í farþegarými, öryggissæti og 6 punkta öryggisbelti ásamt sérútbúnu fjöðrunarkerfi, höggdeyfum og fleiru til að tryggja hámarksöryggi ökumannsins.

Aukin sala hjá Hyundai á árinu

Hyundai Motor Company hefur átt velgengni að fagna á árinu, ekki síst á Evrópumarkaði þar sem sala Hyundai Europe fyrstu níu mánuði ársins var 0,8% meiri en á sama tímabili 2018. Er það öfugt við almenna söluþróun í greininni á tímabilinu þar sem hún var 1,6% minni fyrstu þrjá ársfjórðungana samkvæmt tölum Samtaka evrópskra bílaframleiðenda ACEA.

„Helstu vaxtarsvæði Hyundai á árinu hafa verið Þýskaland með rúmlega 12% aukningu og Frakkland þar sem salan var um 9% meiri á tímabilinu saman borið við sama tíma 2018. Helstu sölubílarnir eru jepplingurinn Tucson og borgarjepplingurinn Kona auk fólksbílanna i10, i20 og i30. Þá hafa Evrópulöndin einnig tekið rafbílum Hyundai vel, ekki síst Kona EV, þar sem bílaverksmiðja fyrirtækisins annar vart eftirspurn. Hyundai gerir ráð fyrir að skila enn betri afkomu á árinu 2020 en á yfirstandandi ári,“ segir í tilkynningu.

Tvinnbíllinn Hyundai Nexo í Bonneville.
Tvinnbíllinn Hyundai Nexo í Bonneville.
Hyundai Sonata Hybrid á leið til hraðamets í Bonneville.
Hyundai Sonata Hybrid á leið til hraðamets í Bonneville.
mbl.is