Toyota smíðar örbíl

Ultra Compact BEV Concept Model for Business.
Ultra Compact BEV Concept Model for Business.

Toyota hefur um dagana smíðað litla bíla en engan þó jafna lítinn og hugmyndabílinn sem fyrirtækið kynnti á alþjóðlegu bílasýningunni sem nú stendur yfir í Tókýó.

IQ-bíllinn var ekki svo galin hugmynd og ágætur til síns brúks. Nú boðar Toyota hins vegar mun minni bíl og alvaran með honum virðist mikil því hann er sagður koma á götuna í Japan þegar á næsta ári, 2020.

Á lengdina er bíllinn 2,495 metrar og 1,290 á breiddina, með öðrum orðum eru það eiginlega sömu mál ogTwizy.

Hraðafíklar verða seint ánægðir með nýja smábílinn því hann mun aldrei komast hraðar en sem nemur 60 km/klst. Þá verður drægi hans 100 km, sem er í minna lagi en auðvelt mun að tengja hann algengri heimilisinnstungu þegar ferð lýkur. Upplagður borgarbíll mætti segja.

Nafnið á bílnum er með ólíkindum og eiginlega í öfugu hlutfalli við smæð hans, en það hljóðar svo:  Ultra Compact BEV Concept Model for Business. Kannski verður það eitthvað minna þegar hann kemur á götuna.

mbl.is