43% voru nýorkubílar

Nýorkubíll, knúinn vetnisrafala.
Nýorkubíll, knúinn vetnisrafala. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Sala á nýorkubílum (rafmagn, tengiltvinn, vetni, metan og hybrid) hefur aukist mikið á síðustu tveimur árum í hlutfalli við bíla knúna jarðefnaeldsneyti, og sérstaklega núna á seinnihluta þessa árs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu (BGS). Segir ennfremur, að síðustu tveir mánuðir hafi jafnframt gefið jákvæðar vísbendingar um að bílasala sé almennt að aukast aftur eftir mikin samdrátt frá síðasta hausti.

Það sem af er ári er samdráttur á skráningum nýrra fólksbíla upp á 35,7% miðað við síðasta ár, en í október er samdrátturinn hinsvegar aðeins 17,7% borið saman við október í fyrra.

Hvað varðar skráningar nýorkubíla þá standa Íslendingar töluvert framar Evrópulöndunum, að Noregi undanskyldum. Árið 2018 voru 6,9% nýskráðra fólksbíla á EES-svæðinu nýorkubílar samanborið við 16% hér á landi. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs voru 9,5% náskráðra fólksbíla í EES-löndunum nýorkubílar samanborið við 22,7% hér á landi.

Í október einum og sér voru nýorkubílar 43% af sölu mánaðarins á Íslandi. Nýorkubílar eru því samtals 26,6% af heldarsölu ársins.

mbl.is