Gallar í forritum kostuðu banaslys

Myndskeið úr Uberbílnum sýnir Herzberg á leið yfir götua rétt …
Myndskeið úr Uberbílnum sýnir Herzberg á leið yfir götua rétt áður en bíllinn skall á henni í Tempe 18. mars í fyrra. AFP

Banvænir gallar reyndust í forritum sjálfekins Uber-bíls, af gerðinni Volvo XC90, sem ók á konu í Tempe í Arizona með þeim afleiðingum að hún beið bana.

Hin 49 ára gamla Elaine Herzberg lést af áverkum sem hún hlaut er Uber-bíllinn kom aðvífandi og greindi hana ekki á gangbrautinni. Óhappið átti sér stað í mars í fyrra, 2018.

Að sögn sérfræðinga Samgönguöryggisráðs Bandaríkjanna (NTSB) leyndust  öryggisgallar í stýrikerfum bílsins; sjálfakstursbúnaði hans. Kom í ljós að bíllinn greindi konuna ekki sem gangandi vegfaranda.  Ekki hefur verið komist að þeirri niðurstöðu hver orsök slyssins var en búist er við að kveðið verði á um það á næsta fundi öryggisnefndarinnar, þann 19. nóvember.

Rannsóknin hefur kveikt ýmsar spurningar varðandi öryggi sjálfekinna bíla og þykir ljós, að þau álitaefni munu gagnast við þróun sjálfakstursbíla framtíðarinnar.

Frú Herzberg leiddi reiðhjól yfir illa lýsta fjölreinagötu er tilraunabíllinn kom aðvífandi. Nam búnaður hans ekki  konuna fyrr en nánast er hann skall á henni. Þrátt fyrir snarhemlun varð slysi ekki forðað.

„Í hönnun sjálfaksturskerfisins var ekki  reiknað með gangandi vegfarendum sem ekki fylgdu umferðarreglum,“ segir NTSB. Hafi engin gangbraut verið  þar sem fórnarlambið gekk yfir götuna.

Í skýrslu stofnunarinnar segir að frá í september 2016 til mars 2018 hafi Uberbílar í sjálfakstri keyrt 37 sinnum á.

Saksóknari hefur komist að þeirri niðurstöðu að Uber beri ekki saknæma ábyrgð á dauða frú Herzberg. Ólokið er hins vegar rannsókn á þætti varabílstjórans Rafaelu Vasques sem gæti átt eftir að verða sótt til saka. Myndbandsupptökur í bílnum leiddu nefnilega í ljós, að í stað þess að fylgjast með umferðinni hafi hún litið undan rétt fyrir áreksturinn og allt benti til að hún hafi á þeim augnablikum verið að streyma sjónvarpsþætti niður í snjallsíma sinn. 

Í framhaldi af slysinu bönnuðu yfirvöld í Arizona allan þróunarakstur Uber með sjálfakstursbúnaði á vegum úti. Brást Uber við því með að hætta bílþróuninni í Arizona. Flutti það sig um set með þær til Pennsylvania og tók upp þráðinn þar.

mbl.is