Navara og NV400 í úrslitum

Nissan NV400.
Nissan NV400.

Nissan Navara og NV400 eru komnir í úrslit í vali á atvinnubíl ársins 2020; Navara í flokki pallbíla og NV400 í flokki sendibíla. Tilkynnt verður um úrslitin 20. nóvember við hátíðlega athöfn í Lyon í Frakklandi.

Áður en tilkynnt verður um úrslitin fær hópur þaulreyndra bílablaðamanna keppinautana til þriggja daga prófana í Svíþjóð, þar sem burðar- og dráttargeta þeirra verður borin saman, aksturseiginleikar við misjafnar vegaðstæður, þægindi, tækni og virði kaupanna miðað við verðlagningu og fleira.

Navara pallbíll ársins 2016

Nissan Navara var kjörinn pallbíll ársins 2016, en að þessu sinni keppir hann um hnossið við Ford Ranger, Toyota Hilux og Renault Alaskan.Bíllinn var einnig kjörinn pallbíll ársins hér á landi árið 2016.

Í flokki stærri sendibíla keppir NV400 við Fiat Ducato, Iveco Daily og Volkswagen Transporter T6.1. „Nissan NV400 býður upp á fjölbreytta nýtingarmöguleika, afkastamikla en jafnframt sparneytna vél og öryggisbúnað í hæsta gæðaflokki ásamt miklum þægindum í farþegarými sem Nissan hefur endurhannað frá grunni til að auka gæðin fyrir notendur. Nissan býður NV400 með vali á mismunandi hjólhafi, lengd, hæð, flutningsgetu og vélum ásamt því sem hann býðst hvort heldur sem er framdrifinn eða með drifi á afturhjólum og val er um ýmsan annan frágang sem fellur best að þörfum kaupenda,“ segir í tilkynningu.

Pallbíllinn Nissan Navara.
Pallbíllinn Nissan Navara.
mbl.is