Hraðskreiðasti traktor í heimi er mættur

Guy Martin við traktorinn hraðskreiða.
Guy Martin við traktorinn hraðskreiða.

Það er eins og það sé mönnum í blóð borið að reyna við met af öllu tagi. Margt af því finnst mönnum kannski fáfengilegt en slíkar vangaveltur lét Bretinn Guy Martin sem vind um eyru þjóta.

Martin þessi gerði sér lítið fyrir og ók JCB Fastrac-dráttarvél á 167 km hraða sem var hraðamet fyrir vinnuvélar í þessum flokki. Nú síðla haustsins gerði hann gott betur við mettilraunir á Elvington-flugbrautinni í Englandi.

Nú brúkaði hann sérlega undir- og útbúna JCB Fastrac Two-dráttarvél til hraðakstursins. Og náði 217 km/klst. meðalhraða eftir að hafa ekið mælikaflann til beggja átta. Í annarri ferðinni sló nál hraðamælanna upp í 247 km/klst. en það er sem næst flugtakshraði margra farþegaflugvéla. Metin hefur hann fengið skráð og viðurkennd af metabók Guinness. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: