Aspark fer út fyrir öll velsæmismörk

Rafmagnsofurbíllinn Aspark.
Rafmagnsofurbíllinn Aspark.

Hversu hratt ætti að vera leyfilegt að aka af stað í almennri umferð? Það þykir ekki amalegt að ná upp í hundraðið á 4 sekúndum, og ævintýri að fara niður fyrir 3 sekúndur.

En hvað ef bíllinn nær 100 km hraða á 1,9 sekúndum, eins og rafmagns-ofurbíllinn Aspark Owl? Er það yfir höfuð skynsamlegt?

Um japanska smíði er að ræða og þó að Aspark Owl þyki ekki lauflétt bifreið, eða um 1,9 tonn, þá er hún svo lág að aðeins 99 cm eru frá malbiki upp að hæsta punkti. Fyrir vikið er vindmótstaðan lítil sem engin, en ökumannsstaðan líklega svipuð og í Formúlu 1 kappakstursbíl. Rafhlaðan getur geymt 64 kWh og á að duga í allt að 450 km akstur. Sennilega styttir það drægið töluvert ef ekið er á hámarkshraða, en drifbúnaðurinn getur framkallað allt að 2.012 hestöfl.

Aspark Owl verður smíðaður í 50 eintökum og þurfa áhugasamir að borga 3,2 milljónir dala fyrir bílinn, jafnvirði tæplega 400 milljóna króna. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: