Sjö í lokaslaginn

Nýr Peugeot 208 er meðal sjö bíla sem keppa um …
Nýr Peugeot 208 er meðal sjö bíla sem keppa um titilinni „Bíll ársins 2020“ í Evrópu.

Bíll ársins í Evrópu er viðurkenning sem bílaframleiðendum þykir fengur í. Nýtist nafnbótin vel í markaðsstarfi.

Óðum líður að tilkynnt verði um verðlaunabíl ársins 2020 en sjö bílar eru komnir í lokalotuna. Eru það BMW 1-serían, Ford Puma, Peugeot 208, Porsche Taycan, Renault Clio, Tesla Model 3 og Toyota Corolla.

Einn af þessum mun hljóta titilinn en í dómnefnd verðlaunanna eru bílablaðamenn víðs vegar að úr Evrópu. Fjöldi þeirra frá einstökum ríkjum ræðst af stærð og styrk bílamarkaðarins þeirra.

Ekki er keppt í flokkum heldur aðeins útnefndur einn bíll sem bestu kaupin af urmul framúrskarandi bíla. Úrslitin verða tilkynnt á bílasýningunni í Genf í mars nk.

Til að teljast gjaldgengur þarf bíllinn að vera af nýjustu gerð og henta alþýðu manna og ætluð sala minnst eittþúsund eintök á ári. Ekki koma til greina módel sem fengið hafa andlitsupplyftingu á árinu. Loks verður hann að hafa verið kominn á götuna í minnst fimm Evrópulöndum fyrir komandi áramót.

mbl.is