Fjarlægja flöskuháls rafbílanna

Sigurður hafði reynt að fá fram breytingar á löggjöfinni í …
Sigurður hafði reynt að fá fram breytingar á löggjöfinni í rúm tvö ár en talaði fyrir daufum eyrum þar til nýlega þegar nefnd var stofnuð. mbl.is/​Hari

Stjórnarfrumvarp sem miðar að því að auðvelda einstaklingum að setja upp rafhleðslustöðvar í fjöleignarhúsum var birt á vef Alþingis í síðustu viku.

Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, sat í nefndinni sem vann að frumvarpinu en hann telur að það sé mikil réttarbót og framför. Sömuleiðis getur frumvarpið leitt til þess að rafbílaeigendum sé gert hærra undir höfði en öðrum. Hingað til hafa þröngar reglur um breytingar á bílastæðum gert orkuskiptum bílaflotans erfitt fyrir.

„Með þessu er verið að opna fjöleignarhús fyrir rafbílum, þarna er verið að taka burt flöskuháls sem ella hefði staðið þessum orkuskiptum fyrir þrifum,“ segir Sigurður.

Eins og staðan er í dag þarf samþykki allra eigenda að húsnæði að liggja fyrir svo hægt sé að ráðast í uppsetningu á hleðslustöð fyrir rafbíla á sameiginlegri lóð þótt bílastæðið sé eftir sem áður notað sem almennt bílastæði. Ef einskorða á notkun tiltekins bílastæðis við hleðslu rafbíla þarf samþykki allra eigenda til. Sé frumvarpið samþykkt breytist þetta og húsfélagi fjöleignarhúss verður skylt að úthluta sérstökum bílastæðum undir hleðslubúnað fyrir rafmagnsbíla.

Slys er nú tímaspursmál

Að sögn Sigurðar er staðan eins og hún er í dag stórhættuleg þar sem rafbílaeigendur sem búi í fjöleignarhúsum þurfi að fara krókaleiðir til þess að tengja bíla sína við rafmagn en það geti skapað hættu. Sigurður flutti nýverið erindi á ráðstefnu verkfræðistofunnar Verkís um þessi mál.

„Þar var sagt frá dæmum um það að bílar hefðu brunnið og kviknað í húsum. Þeir töldu að það væri bara tímaspursmál hvenær kviknaði í bíl í stórum bílakjallara og þá væri voðinn vís,“ segir Sigurður.

Hingað til hefur skortur á hleðslustöðvum einnig getað staðið í vegi fyrir fasteigna- og/eða bílakaupum, að sögn Sigurðar.

„Þetta er farið að standa í vegi fyrir fasteignakaupum, þú kaupir ekki eign vegna þess að það eru ekki hleðslumöguleikar þar eða þú kaupir ekki rafbílinn sem þig langar í. Það er náttúrlega óþolandi að svona hindranir standi í vegi fyrir fólki sem á að hafa frjálst val.“

Aðrir eigendur en sá sem óskar eftir hleðslustöð munu í einhverjum tilfellum þurfa að greiða hluta kostnaðarins. Sigurður segir að vissulega sé með þessu verið að veita einum hópi, rafbílaeigendum, forréttindi umfram aðra hópa.

„Þarna er verið að skipta takmörkuðum gæðum og veita einhverjum forgöngu en þetta er nauðsynlegt til þess að fyrirætlanir um orkuskipti nái fram að ganga.“

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir því að virðisaukaskattur vegna uppsetningar hleðslustöðva verði endurgreiddur að fullu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: