Ekki sama hvernig er staðið að keramíkhúðun

Starfsmaður nostrar við lakkið á bíl viðskiptavinar. Þjónustan kostar sitt …
Starfsmaður nostrar við lakkið á bíl viðskiptavinar. Þjónustan kostar sitt en auðveldara verður að halda bílnum hreinum og fallegum. Ljósmyndir/Guðmundur Karl Sigurdórsson

Það tekur sérfræðing nokkra daga að setja keramíkhjúp á bíl, og getur kostað á við stórt og gott háskerpusjónvarp. En ef rétt er að verkinu staðið verður bíllinn glansandi fínn svo árum skiptir og öll þrif mun einfaldari.

„Þá er ekki spurning að þetta skilar sér í betra endursöluverði. Mín reynsla er sú að bílar sem hafa fengið þessa meðhöndlun seljast hratt enda allt annað að horfa á þá á plani eða inni í sal hjá bílasölunum,“ segir Guðmundur Einar Halldórsson, framkvæmdastjóri Gtechniq á Íslandi (www.gtehcniq.is).

Guðmundur rekur verkstæði á Selfossi en að auki er Gtechniq með samstarfsfyrirtæki um allt land þar sem þrautþjálfaðir menn og konur meðhöndla ytra byrði bíla með efnum sem hafa verið þróuð af breskum efnafræðingum yfir langt skeið. „Framfarirnar hafa verið mjög örar á undanförnum árum og áratugum og leitt að sumir skuli nota árangurinn af keramíkhúðun fyrir 10 eða 20 árum til viðmiðunar þegar þeir gera upp við sig hvort meðhöndla eigi bílinn í dag,“ útskýrir Guðmundur og segir að það að bera nýjustu efni saman við þau eldri sé eins og að bera saman svart og hvítt.

Þunn en mjög hörð

Guðmundur segir það nokkurra daga vinnu að keramíkhjúpa meðalstóran bíl.
Guðmundur segir það nokkurra daga vinnu að keramíkhjúpa meðalstóran bíl.


Þrátt fyrir nafnið á efnablandan sem borin er á lakkið á bílnum fátt sameiginlegt með keramíkinu í sparistellinu uppi í eldhússkáp. Helsta innihaldsefnið í blöndunni hjá Gtechniq er kvarts-sandur sem myndar örþunna en grjótharða hlíf ofan á lakkinu. Áður en efnið er borið á þarf samt að undirbúa lakkið vandlega og bretta upp ermarnar: „Við byrjum á að þrífa bílinn hátt og lágt, að innan og utan og fara um þrír til fjórir tímar í það. Þá fyrst getum við hafist handa við að massa lakkið og leiðrétta, og í okkar bestu meðferð má reikna með að um 20 til 30 tíma vinna fari í að fjarlægja alla minniháttar galla í lakki og nostra við ytra byrði ökutækisins. Því næst er lakkið skolað með ísoprópanóli sem dauðhreinsar yfirborðið og fjarlægir hverja minnstu örðu af fitu og óhreinindum, þannig að við getum náð betri bindingu við lakkið. Að bera sjálft harða efnið á kallar líka á mikla vandvirkni en tekur samt ekki nema sirka fjóra tíma, og á meðan keramíkhúðin binst við lakkið húðum við rúður, plastfleti, felgur og meðhöndlum einnig fleti innan í bílnum s.s. með bakteríudrepandi hreinsi og verndandi vatnsfælnum efnum sem geta gert gæfumuninn ef t.d. vökvi hellist yfir sæti.“

Besta efni Gtechniq binst rækilega við yfirborð lakksins og þó aðeins sé um að ræða örþunna himnu þá styrkir hún lakkið til muna en kemur um leið í veg fyrir að óhreinindi og bleyta loði við yfirborð bílsins. „Við bætum við vatnsfælandi húð sem þarf að endurnýja árlega og þá þarf að koma með bílinn til okkar í stutta skoðun til að viðhalda ábyrgð á keramíkhúðuninni. Eftir þetta þarf ekki nema að sápuþvo bílinn og hann lítur út fyrir að vera nýbónaður. Þrifin verða mun auðveldari og skemmtilegra að eiga bílinn og halda honum fallegum, auk þess sem varnarhjúpurinn hlífir lakkinu við skemmdum af völdum fínkorna óhreininda.“

Guðmundur leggur ríka áherslu á að fagmenn séu fengnir til verksins enda getur útkoman verið allt annað en falleg ef hendi er kastað til við að keramíkhúða bíl. „Í dæmigerðum mánuði fæ ég til mín um 25 bíla og þar af er ekki óalgengt að um þriðjungur séu bílar sem búið er að húða annarsstaðar en verið gert svo illa að þarf að hreinsa eldri hjúpinn af og byrja síðan frá grunni, með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn.“

Húðunin gerir bílinn ekki bara glansandi fínan og nærri því sjálfhreinsandi, heldur getur líka verið mikilvægt öryggisatriði að húða rúður með Gtehcniq-vatnsfælu. „Liggur þá við að þurfi varla að nota rúðuþurrkurnar því rigningin rennur svo greiðlega af rúðunni og útsýni ökumans mun betra. Þar að auki festist ís og snjór ekki eins auðveldlega við rúðuna og mun auðveldar að skafa bílinn,“ segir Guðmundur sem hefur húðað ófáa lögreglu- og sjúkrabíla, og líka plexígler-rúðurnar á björgunarþyrlunum, og ótal björgunarbáta. „Keramíkhúðun á einmitt uppruna sinn í bátageiranum til að létta eigendum skemmtibáta lífið og færðist þaðan yfir í fluggeirann og loks að byrjað var að nota þessa aðferð til að verja lakkið á bílum sem og að halda heimilum í horfinu,“ segir Guðmundur sem hefur m.a. húðað glugga á hótelum og veitingastöðum, baðkör, flísar og heita potta til að halda þeim fallegum og hreinum lengur.

Hvað kostar svo meðferðin? Guðmundur segir það breytilegt eftir stærð bíls og hvaða þjónustuflokk viðskiptavinurinn velur. Þannig geti húðun á ytra byrði bíls á stærð við Volvo XC90 kostað um 200, 250 eða 300.000 eftir umfangi húðunarinnar og vali á efnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: