BL frumsýnir fimm nýja bíla í janúar

Rafbíllinn Mini Cooper SE
Rafbíllinn Mini Cooper SE

Það verður mikið um að vera hjá BL við Sævarhöfða á næstu vikum því alls frumsýnir
fyrirtækið fimm nýjar kynslóðir bíla frá framleiðendunum Mini, Nissan, Renault og
Subaru.

Mini ríður á vaðið þegar fyrsti rafbíll framleiðandans, Mini Cooper SE, verður frumsýndur. Um er að ræða þriggja dyra útgáfu Mini Cooper SE. Rafdrifinn Mini er með 184 hestafla rafmótor sem skutlar honum í 100 km. hraða á klst. á aðeins 7,3 sek. Nýr rafdrifinn Mini verður fáanlegur í þremur útbúnaðarútfærslum.

Subaru Forestier.
Subaru Forestier.


Nýr Subaru Forester verður nú í fyrsta sinn frumsýndur með e-Boxer Hybrid raftækni. Forester er fyrsti bíll Subaru sem búinn er þessari nýju vélatækni þar sem tveggja lítra 150 hestafla bensínboxervél og 12 hestafla rafmótor vinna saman og gera ökumanni kleift við ákveðnar aðstæður að aka bílnum eingöngu á rafmótornum áður en aðalvélin ræsist.

„Tæknin dregur úr eldsneytisnotkun og mengandi útblæstri og er sérstaklega þægileg og þýð í borgarakstrinum. Öll hönnun varðandi fyrirkomulag og staðsetningu nýju tækninnar tryggir sem fyrr lágan og dreifðan þyngdarpunkt til að veita mikinn stöðugleika og öryggi í akstri sem eru meðal helstu aðalsmerkja Subaru. Nýr Forester fékk í desember fullt hús öryggisstiga í árekstra- og öryggisprófunum Euro NCAP,“ segir í tilkynningu.

Nýr Captur og Clio frá Renault

Renault Captur hinn nýi.
Renault Captur hinn nýi.


Renault Captur og Clio hafa fengið hressilegar upplyftingar með nýjum framendum, fallegum innréttingum og nýrri tækni. Captur hefur tekið sportlegum útlitsbreytingum auk þess sem farþegarýmið hefur verið endurhannað og stækkað. Þá er Captur ennfremur á nýjum undirvagni sem gerir hann enn hæfari til aksturs á misjöfnum vegum en áður. Renault Clio, sem hefur í 30 ár verið einn söluhæsti bíllinn í sínum flokki í Evrópu, hefur líka tekið fáguðum en um leið sportlegum breytingum auk þess sem  innréttingin er öll nýstárlegri og full af spennandi tækni. Nýir Captur og Clio hafa báðir hlotið fullt hús öryggisstiga Euro NCAP.

Nýr sportlegri og tæknivæddari Nissan Juke

Renaulæt Clio hinn nýi.
Renaulæt Clio hinn nýi.


Endahnútinn á þéttar frumsýningar hjá BL næstu vikurnar slær nýr og endurhannaður 117 hestafla Nissan Juke. Bíllinn er á nýjum og stærri undirvagni sem bætir í senn rými og þægindi fyrir ökumann og farþega auk þess að bæta stöðugleika og öryggi í akstri.

Juke er búinn margvíslegri nýrri tækni á sviði öryggis og þæginda, svo sem akstursaðstoðarkerfinu Nissan ProPILOT, og afþreyingarkerfinu Nissan Connect sem tengjast snjallforritum á borð við Apple Car Play og Google. Nýr Juke hefur einnig hlotið fullt hús öryggisstiga hjá Euro NCAP.

Nissan Juke hinn nýi.
Nissan Juke hinn nýi.


 

mbl.is