Forsala á Honda e gengur vel

Aðeins þrjú eintök eru til í heiminum af Honda e …
Aðeins þrjú eintök eru til í heiminum af Honda e og hefur eitt þeirra verið til sýnis hjá Öskju. Síðasti séns í bili að sjá hann er í dag og á morgun, laugardag, því hann verður sendur til sýningartarfa annars staðar á sunnudaginn. Ljóæsmynd/Askja

Forsala á Honda e rafbílnum hefur gengið mjög vel að sögn Jóns Trausta Ólafssonar, framkvæmdastjóra Bílaumboðsins Öskju. Honda e var forsýndur hér á landi um síðustu helgi og hófst þá forsala á bílnum.

„Honda e er fyrsti rafbíll Honda en öll lína Honda verður rafknúin fyrir lok árs 2022, annars vegar með hybrid bílum og svo með hreinum rafbílum. Askja fær fyrstu bílanna til afhendingar í sumar og er einn af fyrstu mörkuðum Honda e í Evrópu. Þetta er bíll sem hefur verið beðið eftir með mikilli eftirvæntingu og það er sérlega gaman að hafa fengið að forsýna bílinn hér heima. Við erum með einn af þremur Honda e rafbílum í heiminum hér í Honda salnum á Fosshálsi 1. Bíllinn verður sendur aftur út í flugi á sunnudag þannig að fyrir áhugasama er um að gera að koma í heimsókn og skoða bílinn í dag eða á morgun, laugardag,“ segir Jón Trausti.

Honda e er því nýjasta viðbótin í úrval rafbíla á Íslandi. Honda e er 154 hestafla rafbíll og togið 315 Nm sem skilar tafarlausri og þýðri hröðun án gírskiptinga. Akstursdrægi Honda e er allt að 220 km. Bíllinn er hlaðinn í gegnum aðgengilegt hleðsluinntak á vélarhlífinni. Búnaðinum fylgir LED mælir sem sýnir á einfaldan hátt hleðslustöðu rafgeymisins. Hægt er að ná 80% hleðslu inn á rafhlöðu á 30 mínútum.

„Honda e er mjög tæknivæddur og snjall bíll. Stafrænt mælaborð í fullri breidd heldur ökumanni upplýstum, býður upp á afþreyingu og tengir ökumann við það sem hann kann best að meta. Það veitir honum fulla stjórn yfir fjölda snjallaðgerða og þjónustuþátta. Honda e er búinn háskerpumyndavélum sem leysa hliðarspegla af hólmi. Með þessu eykst yfirsýn og það dregur úr heildarbreidd bílsins. Hurðarhúnarnir falla sléttir að hurðunum og skjótast fram þegar þarf að opna þær. Framljós, myndavélar og radar eru samþætt í einni heildstæðri hönnun,“ segir  í tilkynningu.

mbl.is