Toyota kynnir nýjan smájeppa

Myndin af útlínum nýja dvergjeppans sem Toyota kynnti í gær.
Myndin af útlínum nýja dvergjeppans sem Toyota kynnti í gær.

Toyota kynnti í gær hugmyndir sínar af nýjum smájeppa sem byggður verður upp samhliða Yaris. Birti japanski bílsmiðurinn af þessu tilefni skyssu af útlínum bílsins.

Um er að ræða alveg nýtt módel en dvergjeppinn grundvallast á nýju afbrigði af GA-B undirvagninum. Nafn hefur bíllinn ekki fengið en engar áætlanir hafa verið mótaðar um hvenær honum verður hleypt af stokkum.
 
„Þessi bíll mun byggja á velgengni  Yaris í Evrópu en vonir standa til að þessir tveir bílar nemi um 30% sölu Toyota í álfunni árið 2025,“ sagði Matt Harrison, forstjóri Toyota í Evrópu (TME). Hann sagði nýja bílinn ekki vera afsprengi af öðrum módelum í smíðislínu fyrirtækisins, heldur bíl með sjálfstæðan persónuleika.

Nýja bílinn ætlar Toyota að smíða í sömu smiðju og Yaris, þ.e. í risastórri bílsmiðju fyrirtækisins við Valenciennes í Frakklandi.

mbl.is