Sópa að sér verðlaunum

Verðlaunabílar Renault.
Verðlaunabílar Renault.

Frönsku bílarnir Renault, Dacia og Alpine unnu fernar viðurkenningar á verðlaunahátíð tímaritsins What Car? í London í gærkvöldi.

Nýi rafbíllinn Renault Zoe var kjörinn bíll ársins í flokki rafbíla og hlaut einnig aðra viðurkenningu sem besti rafbíllinn í verðflokknum undir 30.000 sterlingspundum. Var þetta sjöunda árið í röð sem Zoe hreppir viðurkenningu þessa.

Dacia fór af hólmi með sigur í tveimur flokkum, og það ekki í fyrsta sinn, því áttunda árið í röð hrósaði Dacia Sandero sigri í flokknum „besti smábíllinn undir 12.000 pundum.

Þá hlotnaðist stallbróður hans, Dacia  Duster, sæmdarheitið „besti fjölskyldusportjeppinn undir 18.000 pundum“ annað árið í röð.
 
Loks var sportbíllinn Renault Alpine A110 kosinn „sportbíll ársins“ og það annað árið í röð.

Viðurkenningarnar „What car? Car of the Year“ hafa verið veittar árlega frá 1978 og eru meðal eftirsóttustu viðurkenninga í breskum bílgreinum.
 

mbl.is