Mannlausir í 32 milljónir km

Waymo hefur samið um kaup á allt að 20.000 Jaguar …
Waymo hefur samið um kaup á allt að 20.000 Jaguar I-Pace-rafbílum.

Framtíðin er í Phoenix í Arizona-ríki, en þar er Google-tengda fyrirtækið Waymo að þróa bíltækni til sjálfaksturs. Taka um 600 bílar þátt í þeim og í engum þeirra hefur bílstjóri setið undir stýri.

Alls hafa um 1.500 manns notað bílana til að fara á milli staða. Panta þeir bíl til sín gegnum eigið smáforrit Waymo eða gegnum Lyft. Þá hefur hluti flotans verið nýttur til að aka bögglum heim til neytenda frá pöntunarfyrirtækjum.

Að sögn forstjóra Waymo, Johns Krafcik, hafa bílstjóralausir bílar fyrirtækisins lagt að baki 32 milljónir kílómetra við þróun sjálfakstursbúnaðarins. Þetta jafngildir 800 ferðum hringinn um jörðina við miðbaug, 40 ferðum til tunglsins og til baka, og 1.400 meðaltals akstursárum bandarískra ökumanna.

Við allan þennan akstur hafa aðeins orðið nokkur minniháttar óhöpp. Það alvarlegasta varð líklega árekstur í hitteðfyrra, 2018, við prófanir á hraðbraut í Kaliforníu. Orsakir hans voru þær að í bílnum sem klessti sat bílstjóri sem sofnaði undir stýri á ferð. Steig hann í leiðinni á bensíngjöfina, sem aftengdi um leið sjálfakstursbúnaðinn.

Bílar Waymo sem aka fram og aftur um Arizona-ríki við prófanirnar eru hvítir tvinnbílar af gerðinni Chrysler Pacifica. Í náinni framtíð hefjast prófanir á rafbílum og hefur Waymo samið við Jaguar um kaup á allt að 20.000 Jaguar I-Pace.

Waymo er í eigu eins af dótturfélögum Google, Alphabet. Búist er við að það bæti fljótlega við akstursprófunum í öðrum bandarískum stórborgum. Fyrstu I-Pace eru þegar komnir í prófanir víða um Kaliforníu. Þar er þeim þó enn sem komið er bannað að rukka fyrir þjónustu sína. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: