Nýr og hátæknivæddur E-Class á leiðinni

E-Class mun fá andlitslyftingu í sumar og kemur þá með …
E-Class mun fá andlitslyftingu í sumar og kemur þá með auknum tæknibúnaði og akstursstoðkerfum.

Mercedes-Benz E-Class er vinsælasti bíll þýska lúxusbílaframleiðandans og í huga margra hjarta þríhyrndu stjörnunnar.

Alls hafa yfir 14 milljónir eintaka selst af E-Class á heimsvísu síðan bíllinn kom á markað árið 1946 og er hann söluhæsti bíll Mercedes-Benz í sögunni.

„E-Class hefur ávallt haft voldugt og virðulegt útlit og er af mörgum talin táknmynd Mercedes-Benz,“ segir í tilkynningu. 

Mikil breyting varð á E-Class árið 2016 þegar tíunda kynslóð bílsins leit dagsins ljós. Bæði tók bíllinn miklum breytingum í útliti og hönnun, bæði að innan sem utan, en einnig fékk hann mun meiri aksturs- og tæknibúnað en áður. Tíunda kynslóð E-Class kom einnig í tengiltvinnútfærslu. 

E-Class mun fá andlitslyftingu í sumar og kemur þá með auknum tæknibúnaði og akstursstoðkerfum sem munu gera bílinn tæknivæddastan í sínum flokki. E-Class verður m.a. í boði með nýjustu tækni af árekstrarvörn, umferðaskiltavara, viðvörun fyrir blinda punktinn, sjálfvirkum bílastæðaleggjara og 360° myndavél sem sýnir ökumanni yfirlitsmynd af bílnum og háþróuðum sjálfvirkum skriðstilli svo eitthvað sé nefnt.

E-Class kemur þá með hinu háþróaða MBUX margmiðlunarkerfi Mercedes-Benz. Þar er m.a. boðið upp á „Hey Mercedes“ raddstýringarkerfið sem þegar er komið hinar ýmsu týpur frá framleiðandanum. E-Class mun koma í sjö mismunandi tengiltvinnútfærslum á næstunni og eru sumar þeirra með 4MATIC fjórhjóladrifinu sem myndar sérstöðu bílsins á markaði. Nýr og uppfærður E-Class verður fyrst í boði boði sem stallbakur og langbakur en kemur síðan í coupé og blæjubíls sportútfærslum í framhaldinu.

mbl.is