Trump tók hring á Daytona

Forsetabifreiðin tók sig vel út á kappakstursbrautinni.
Forsetabifreiðin tók sig vel út á kappakstursbrautinni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti lét sig ekki vanta á Daytona 500 kappakstrinum sem fram fór á sunnudag. Var forsetanum afskaplega vel tekið af áhorfendaskaranum en hann lét ekki duga að ávarpa samkomuna og hefja viðburðinn með formlegum hætti, heldur ók hann líka einn hring um kappakstursbrautina á forseta-limósínunni í fylgd öryggisbíla. Litríkir kappakstursbílarnir fylgdu í humátt á eftir þeim.

Trump er ekki fyrsti forsetinn til að setja Daytona 500 kappaksturinn því George W. Bush gerði slíkt hið sama árið 2004.

Daytona 500 er að margra mati merkilegasti kappakstur ársins í bandarískum akstursíþróttum. Alls eru 40 bílar á brautinni og aka þeir 200 hringi eða samtals 500 mílur, um 800 kílómetra. Viðburðurinn fer fram á Daytona International Speedway steinsnar frá Daytona Beach í Flórída og tekur kappaksturinn að jafnaði um þrjá og hálfan tíma.

Því miður tók Trump góða veðrið með sér þegar hann kvaddi kappakstursbrautina, og þurfti að gera hlé á keppni eftir aðeins 20 hringi vegna úrkomu. Var kappakstrinum því frestað til mánudags. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: