Bílaeign hefur aldrei verið meiri

Bifreiðir og ökutæki voru alls metin á 312 milljarða.
Bifreiðir og ökutæki voru alls metin á 312 milljarða. mbl.is/Árni Sæberg

Alls taldi 126.461 fjölskylda fram bifreiðir á skattframtali 2019 vegna ársins 2018. Hafa aldrei fleiri fjölskyldur talið fram bifreiðir á skattframtali en þetta ár. Meðaleign í bifreiðum var 2.466.954 krónur sem var 2,9% meira en árið 2017.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirliti Páls Kolbeins í Tíund, blaði Skattsins, um tekjur og eignir Íslendinga árið 2018.

Bifreiðir eru almennt færðar á skattframtal á kaupverði og síðan niðurfærðar um 10% á hverju ári. Niðurfærslurnar miðast við eignfærsluna árið áður. Ólíkt íbúðarhús-næði, sem hækkar yfirleitt í verði frá ári til árs, falla bifreiðirnar því í verði ár frá ári og eftir því sem bíllinn er dýrari eru niðurfærslurnar meiri. „Kaup landsmanna segja ákveðna sögu um væntingar þeirra til framtíðarinnar. Margir taka lán fyrir bifreiðakaupum og því takast menn yfirleitt ekki á herðar skuldbindingar nema þeir sjái fyrir sér að geta staðið í skilum. Bifreiðaflotinn er því iðulega endurnýjaður í góðæri,“ segir Páll.

Endurnýjun langt komin

Í árslok árið 2018 áttu landsmenn bifreiðir og ökutæki sem metin voru á 312 milljarða. Bifreiðaeign jókst um 17 milljarða eða 5,8% á milli ára. Þetta er minni aukning en árið 2017 en þá jókst bifreiðaeign um 32,4 milljarða eða 12,3%. Árið 2016 jókst bifreiðaeign um 25,4 milljarða sem var 10,7% aukning frá árinu áður. Það var kominn tími á endurnýjun á bifreiðaeign landsmanna, segir Páll, og hefur verðmætið aukist um 96,1 milljarð eða 44,5% frá árinu 2013. „Það lítur út fyrir að endurnýjun bifreiðaflotans sé langt komin en hann hefur aldrei verið jafn verðmætur,“ segir Páll.

Bifreiðir voru metnar á 309,9 milljarða árið 2007 en þær lækkuðu síðan í verði fram til ársins 2013 og höfðu þá rýrnað um 94 milljarða, eða 30,3%. Síðan hafa bifreiðir landsmanna verið endurnýjaðar og verðmæti þeirra aukist.

Mönnum ber að telja fram til skatts aðrar eignir en fasteignir og bifreiðir, s.s. hjólhýsi, tjaldvagna, báta, vélsleða, vélhjól, hesta, seðla og annað slíkt, segir Páll. Landsmenn áttu 31,2 milljarða í öðrum eignum í árslok 2018 sem var 897 milljónum eða 3,0% meira en árið áður en 23.799 fjölskyldur töldu fram aðrar eignir eða 304 fleiri en fyrir ári.

Stór hluti eigna landsmanna sé hins vegar ekki talinn fram á skattframtali en þar megi nefna raunvirði hlutabréfa í fyrirtækjum umfram nafnverð, menntun og rétt til menntunar, lífeyrisréttindi og almanna-tryggingar sem veita ákveðna tryggingavernd og rétt til heilbrigðisþjónustu. Ýmis önnur þjónusta og réttindi gagnvart opinberum aðilum eru mikils virði en hvorki tekju- né eignfærð á skattframtali. „Menn geta þannig leikið sér að því að núvirða framtíðartekjur sínar, laun og ellilífeyrinn sem þeir kunna að fá greiddan að lokinni starfsævinni. Þarna er oft um verulegar fjárhæðir að ræða,“ segir Páll.

„Árið 2018 var Íslendingum gjöfult. Efnahagslífið blómstraði og hagur landsmanna vænkaðist. Það er ekki sjálfgefið að lítil þjóð sem býr við ystu mörk hins byggilega heims, í köldu, blautu og myrku landi, búi við bestu lífskjör í heimi,“ segir Páll Kolbeins í lokaorðum yfirlitsins.

„Íslendingar geta rekið velferðarríki vegna þess að þeir hafa ráð á því. Það hlýtur að teljast betra hlut-skipti að þurfa að læra að hemja sig við nægtaborð vellystinganna en að líða skort, sem er þrátt fyrir allt enn hlutskipti stórs hluta jarðarbúa.“

Ein króna getur breytt öllu

Útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra eru dæmi um nefskatta sem eru lagðir á til að fjármagna opinberan rekstur. Hreinn og klár nefskattur er ákveðin fjárhæð sem er lögð jafnt á alla. Nefskattar leggjast þyngst á þá sem eru með lágar tekjur en skatturinn verður alltaf hlutfallslega minni eftir því sem tekjurnar eru hærri, segir Páll. Þeir sem voru með 1.750.782 kr. sluppu við nefskattana en þeir sem voru yfir þeim tekjumörkum, jafnvel einni krónu, greiddu 11.454 kr. í gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og 17.500 kr. í útvarpsgjald, samtals 28.954 kr. „Þetta er hár skattur af einni krónu sem sýnir hvernig aldurs- og tekjumörk geta haft áhrif á skattlagningu einstaklinga.“
Skattagrunnur
» Á skattgrunnskrá árið 2019 voru 307.699 einstaklingar. Fjölgaði þeim um 10.023 eða 3,4% á milli ára og hafa aldrei verið þetta margir framteljendur á skattgrunnskrá.
» Fjölgun á skattgrunnskrá er að mestu leyti vegna erlendra ríkisborgara sem flust hafa til landsins til lengri eða skemmri tíma.
» Erlendum ríkisborgurum á skrá fjölgaði um 18,4% á sama tíma og íslenskum ríkisborgurum fjölgaði um 0,7%.
» Heildartekjur landsmanna voru 1.862,7 milljarðar 2018 og hækkuðu um 2,45% milli ára.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: