Kolefnisbindur notkun nýrra bíla

Brynjar Elefsen Óskarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs BL, og Reynir Kristinsson, stjórnarformaður …
Brynjar Elefsen Óskarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs BL, og Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar undirrituðu samninginn.

BL hefur gengið til samstarfs við samfélagssjóðinn Kolvið sem felur í sér að fyrirtækið felur Kolviði að kolefnisbinda 1.400 tonn á árinu með gróðursetningu 14.000 trjáplantna.

Ákvörðun samstarfsaðilanna um bindingu fjórtán hundruð tonna af kolefnum (CO2) svarar til áætlaðrar meðaltalslosunar allra nýrra bíla sem BL gerir ráð fyrir að fyrirtækið selji einstaklingum á árinu 2020.

„Miðað er við meðaltalslosun bíla sem BL hefur umboð fyrir og fimmtán þúsund kílómetra meðaltalsakstur á tólf mánaða tímabili. BL heldur kolefnisbókhald um samsetningu sölunnar í því skyni að fá sem nákvæmasta mynd af losuninni með tilliti til aukinna tækifæra til frekari þróunar á samstarfinu við Kolvið,“ segir í tilkynningu.

Á árinu verða kaupendur nýrra bíla hjá BL upplýstir um samstarfsverkefni BL og Kolviðar vegna kolefnisbindingar einstaklingssölu ársins og þá möguleika sem viðskiptavinir hafa frá og með 1. janúar 2021 til áframhaldandi kolefnisbindingar kjósi þeir svo með eigin samstarfi við Kolvið eins og hægt er að kynna sér á heimasíðu BL eða á heimasíðu sjóðsins.

Minni losun en reglur gera ráð fyrir

Árið 2009 var sett löggjöf í löndum ESB sem hafði það markmið að draga úr kolefnislosun nýrra bíla. Fyrsta markmiðið sem sett var var að kolefnislosun nýrra bíla árið 2015 yrði að meðaltali 130 gr af CO2 á km. Síðan hefur annað markmið verið sett í sama skyni og innleitt verður á árinu 2020 með gildistöku 2021 og felur í sér að meðalkolefnislosun nýrra bíla verði ekki meiri en 95 gr á km.

„Með stöðugt hækkandi hlutfalli raf- og tengiltvinnbíla í sölu til einstaklinga hefur BL náð að uppfylla þessi markmið um heildarlosun flotans og gott betur. Niðurstaða BL fyrir árið 2019 er sú að heildar CO2 útblástur nýrra bíla í sölu til einsaklinga var að meðaltali 90 gr á km eða 12 grömmum undir markmiðum ESB eins og sjá má á línuriti á vefslóðinni bl.is/kolefnisjofnun,“ að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is