Bílaleigubílum fækkaði í fyrsta sinn síðan 2006

mbl.is

baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Bílaleiguflotinn í landinu dróst saman á síðasta ári í fyrsta skipti síðan árið 2006, samkvæmt samantekt fjármögnunarfyrirtækisins Ergo, dótturfyrirtækis Íslandsbanka.

Í samantektinni kemur fram að flotinn hafi dregist saman um sex prósent, en sem dæmi óx hann um tvö prósent árið 2018, 20% árið 2017, 35% árið 2016 og 26% árið 2015.

24.182 bílaleigubílar voru á landinu í fyrra, en árið á undan var fjöldinn 25.591 bíll. Þess má geta að frá árinu 2006 hefur fjöldi bílaleigubíla aukist úr 4.756 bílum upp í 25.591 bíl þegar hæst stóð árið 2018, eins og fyrr sagði, en það er rúmlega fimmföldun. Á sama tíma hefur fjöldi ferðamanna í landinu margfaldast. Þeir voru 460 þúsund árið 2006, tæpar tvær milljónir í fyrra og rúmlega 2,3 milljónir er mest lét árið 2018.

Rekstraraðilum fækkar

Einnig segir í samantekt Ergo að 1,22 bílar hafi verið á hverja 100 ferðamenn á landinu í fyrra, sem er aukning frá árinu 2006 þegar 1,19 bílar voru á hverja 100 ferðamenn.

Þegar litið er til fjölda rekstraraðila bílaleiga á landinu á síðustu árum kemur í ljós að þeim hefur fækkað. Á síðasta ári voru rekstraraðilar sjötíu og sex talsins, en árið á undan voru þeir 79. Árið 2017 voru þeir hinsvegar mun fleiri eða 113 talsins. Í fyrra voru 34 bílaleigur með 50 bíla eða fleiri í rekstri, 29 bílaleigur voru með 10-49 bíla og 13 leigur voru með 1-9 bíla í rekstri.

Stærsta bílaleiga landsins er Höldur, en undir henni eru bílaleigurnar Bílaleiga Akureyrar og Europecar. Leigan var með 4.779 bíla í sínum flota á síðasta ári, eða tæplega 20% af heildarfjölda bílaleigubíla á landinu. Jókst fjöldi bíla í flota leigunnar um fimm prósent milli áranna 2018 og 2019. Næstu sjö bílaleigur á lista yfir stærstu bílaleigur landsins drógu hinsvegar allar úr framboði sínu á síðasta ári. Samtals búa fimm stærstu leigur landsins yfir 58,5% af heildarfjölda bílaleigubíla á landinu, og þær tíu stærstu eru með 76,6% flotans.

Þegar horft er til mesta vaxtar einstakra bílaleiga kemur í ljós að bílaleigan Lotus, sem er 16. stærsta bílaleiga landsins, með 324 bíla, óx mest á milli áranna 2018 og 2019, eða um 53%. Í öðru sæti hvað vöxt varðar var bílaleigan Lava CarRental með 42% vöxt, en hún er með 240 bíla í sinni þjónustu.

Í greiningu Ergo er einnig getið um hvaða fjármögnunaraðilar séu atkvæðamestir á íslenska markaðinum. Þar má sjá að Ergo er með 46,1% markaðarins í bílalánum, en næst á eftir kemur Landsbankainn með 32,8%. Lykill er með 5,7%, Arion banki er með 1,5% og aðrir eru með 14%.

Sjö stærstu bílaleigurnar árið 2019
» Höldur/Bílaleiga Akureyrar/Europecar
» Alp/Avis/Budget/Payless/Zipcar
» Bílaleiga Flugleiða/Hertz/Firefly
» Blue Car Rental/Goldcar
» Bílaleigan Berg/Sixt
» Brimborg/Dollar-Thrifty
» Bílaleigan Geysir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »