Bannað verði að leggja á gangstéttum

Óheppilega lagður bíll sem neyðir gangandi vegfarendur á veginn rétt …
Óheppilega lagður bíll sem neyðir gangandi vegfarendur á veginn rétt fyrir nokkuð krappa begyju.

Það blasir nú við breskum bíleigendum að verða sviptir þeim lúxus að geta lagt bílum sínum að hluta til eða öll leyti á gangstéttum bæja og borga.

Aðdragandi málsins er að samgöngunefnd breska þingsins hvatti í fyrra til banns af þessu tagi til að koma í veg fyrir að gangandi vegfarendur væru settir í stórhættu.

Samgönguráðuneytið í London hefur hrundið af stað samráðsferli þar sem meðal annars verði kveðið á um að „hindrandi gangstéttalagnir“ eða „óþarfa fyrirstaða“ verði flokkað sem umferðarlagabrot. Lögreglu og/eða sveitarstjórnum verði falið að framfylgja banninu.

Sem stendur getur breska lögreglan sektað fyrir hindrun á þjóðvegum en umferðarlögin eru ekki afdráttarlaus hvað „fyrirstaða“ er; á því er engin lagaleg skýring til.

Samgöngunefnd heimastjórnarinnar í Skotlandi tilkynnti árið 2018 að bannað yrði að leggja bílum uppi á gangstéttum. Í London hefur framferði af því tagi verið bannað frá því á áttunda áratugnum, eða yfir 40 ár.

Lagning bíla á gangstéttum að hluta til eða öllu leyti þykir hafa óþægindi í för með sér fyrir gangandi vegfarendur og vera sérdeilis óvinveitt fötluðum sem fara ferða sinna á hjólastólum, fólki sem ýtir barnavagni á undan sér, fólki sem fer um á rafbretti eða á við sjóndepru að stríða.

Loks komst þingnefndin að þeirri niðurstöðu að líta mætti á lagningu upp á gangstétt sem uppsprettu einangrunar og einmanaleika þar sem slíkir bílar gætu gert varnarlausum með öllu ókleift að fara úr húsi. agas@mbl.is

Ástand sem á eftir að breytast með nýja banninu.
Ástand sem á eftir að breytast með nýja banninu.
mbl.is