Geymdi konuna í skottinu

Maðurinn fékk tiltal og sekt.
Maðurinn fékk tiltal og sekt.

Breskur maður var staðinn að því að brjóta útivistarbann vegna kórónuveirunnar er hann og eiginkonan lögðu á sig alls 360 km akstur til að sækja glugga sem þau höfðu keypt á uppboðsvefnum eBay.

Óku hjónin frá Coventry í Miðlöndum Englands til Salford við Liverpool til að sækja umrædda glugga. Vandinn var hins vegar sá, að þegar þeim hafði verið hlaðið inn í bílinn var hvergi pláss fyrir frúna á bakaleiðinni nema í farangursrýminu.

Gluggarnir höfðu kostað aðeins 15 sterlingspund, um 2.600 krónur á gengi dagsins í dag.

Lögregla stöðvaði ferðalanga til að athuga í hvaða erindum þau væru því augljóslega virtist sem þau væru að brjóta útivistarreglurnar nýju. Afgreiddi hún málið með umferðarsekt og áréttaði síðan útivistarreglurnar á samfélagsmiðlum sínum. Þar gerðu svo lesendur  stólpagrín að uppátæki parsins.

mbl.is