Franskir léttastir

Dacia Logan er einfaldur bíll og því léttur.
Dacia Logan er einfaldur bíll og því léttur.

Bílaframleiðendur leita allra leiða til að hafa bílana sem léttasta. Það stuðlar meðal annars að aukinni sparneytni vélanna.

Hafa bílsmiðir ef til vill leitað í smiðju franskra kvenna sem bækur hafa verið skrifaðar um að þær fitni ekki? Almennt eru menn ekki sammála fullyrðingunni um holdafar þeirra en þeir sem trúa henni  benda á holt og gott mataræði og mikla hreyfingu sem skýringu á léttvikt franskra kvenna.

Í nýjasta tölublaði sínu birtir bílablaðið Auto Plus niðurstöður rannsókna sinna á holdafari bíla til að finna út og sannreyna eiginþyngd minni bíla. Þar tróna franskir eða hálffranskir bílar í þremur efstu sætum og sex í efstu tíu.

Efstur á lista yfir 30 léttustu bílana trónir hinn fransk-rúmenski Dacia Logan með 0,9 lítra túrbóvél. Vegur hann 1.082 kíló. Í næstu sætum er Citroen C4 Cactus með sínn 1159 og 1189 kíló. Sá léttari er með 110 hesta PureTechvél en hinn 130 hesta vél.

Spænski bíllinn Seat Leon með 115 hesta 1,0 lítra vél er sá fjórði þyngsti með sín 1212 kíló.  Í fimmta sæti varð Fiat Tipo með 1,4 lítra og 95 hesta vél en hann mældist 1215 kíló. Í sjötta sæti varð svo Peugeot 308 með 110 hesta 1,2 lítra PureTech vél.  Hann reyndist 1254 kílo en nákvæmlega eins módel en með 130 hesta vél hafnaði í áttunda sæti með 1270 kíló. Milli Peugeot bílanna varð Skoda Scala með 116 hestafla 1,0 túrbóvélar en hann vó 1262 kíló.

Í níunda sæti varð Volkswagen Golf með 130 hestafla 1,5 lítra TSI-vél en hann vó 1273 kíló og tíundi varð Renault Megan með 1,3 lítra túrbó bensínvél, en sá bíll vó 1281 kíló.

Munurinn á tómaþunga Dacia Logan og Megan er óvenjumikill af álíka stórum bílum, eða 199 kíló. Skýrist það að mestu leyti af því að Logan er einfaldari af allri gerð og laus við ýmiss konar aðstoðarbúnað.

Í 28. sæti á listanum varð hinn 1403 kílóa  Honda Civic, Type R með 320 hesta vél. Í 29. sæti og einu kílói þyngri varð BMW 1-serían með 140 hesta vél og  í 30. og neðsta sæti varð Toyota Corolla tvinnbíll með 122 hesta aflrás en hann reyndist 1421 kíló, eða 339 kílóum þyngri en Dacian.

mbl.is