300 milljóna pústreykur

Mökkurinn óhugnanlegi stígur upp af einum keppnisbílanna.
Mökkurinn óhugnanlegi stígur upp af einum keppnisbílanna.

Aðstandendur bandarísku „Diesel Brothers“-sjónvarpsþáttanna komust í hann krappan er þeir ætluðu að skemmta áhorfendum með óvenjulegu uppátæki sínu.

Í Bandaríkjunum eru nýjustu stefnur og straumar í jeppasporti nefnd „rúllandi kol“. Gengur það út á að umbreyta stórum dísilvélum, meðal annars með því að fjarlægja örefnasíur og hagræða inngjöf á strokkana þann veg, að út úr vélunum standi eins mikill og biksvartur reykur og unnt er.

Í þætti sem sendur var út í marslok á Discovery-stöðinni sýndu þátttakendur færni sína í þessum efnum. Fögnuður viðstaddra jókst í réttu hlutfalli við reykjarkófið sem spúð var upp úr skorsteinum bílanna.

Heilbrigðisyfirvöldum í Davis-sýslu í ríkinu Utah líkaði ekki uppátækið og hótuðu kæru ef sýningum sem framangreindum væri ekki hætt sjálfviljuglega.

Skellt var skollaeyrum við því og hefur nú dómstóll afgreitt eina kæru. Sektaði hann David „Heavy D“ Sparks, Joshua Stuart, Keaton Hoskins og David „Diesel Dave“ Kiley til að borga rúmlega 850.000 dollara bætur fyrir „níðingsverkin“. Samsvarar það rúmlega 123 milljónum króna.

Opnaði dómarinn jafnframt fyrir þann möguleika að gera mönnunum fjórum að borga útlagðan saksóknarkostnað. Hann er ögn hærri eða 1,2 milljónir dollara. Standist dómurinn áfrýjun bíður reykspúaranna því samtals um 304 milljóna króna reikningur.

Dómstóllinn tók undir þann málatilbúnað heilbrigðisyfirvalda, að mennirnir hefðu af ásettu ráði valdið mun meiri mengun en lög gætu heimilað. Var einn umbreyttu bílanna mengunarmældur og reyndist losun hans á sótögnum 21 sinni meiri en hámarkslosun kvað á um. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »