Mildir í meirihluta

Rafbíllinn Hyundai Kona
Rafbíllinn Hyundai Kona mbl.is/Árni Sæberg

Í apríl voru 430 fólks- og sendibílar nýskráðir hér á landi, 394 til einstaklinga og fyrirtækja og 36 bílaleigubílar. Heildarnýskráningarnar voru tæplega 68% færri en í sama mánuði 2019 og 27,5% færri sé litið til fyrstu fjögurra mánaða ársins miðað við sama tímabil fyrra árs.

Í tilkynningu frá bílaumboðinu BL kemur fram, að af merkjum þess var Hyundai með flestar nýskráningar í apríl eða 22. BMW var með 18 og Land Rover 16. Þá voru umhverfismildir bílar í meirihluta þeirra sem fyrirtækið nýskráði í mánuðinum eða 51 af 93. „Er hlutfallið ívið hærra en undanfarin misseri og jafnframt í samræmi við þróunina á markaðnum í heild þar sem sífellt fleiri nýskráðir bíla eru búnir grænum orkulausnum. Af grænu lausnum BL voru 24 hreinir rafbílar nýskráðir í mánuðinum, flestir frá Hyundai, og 27 tengiltvinnbílar, þar af sautján frá BMW.“

95% fækkun hjá bílaleigum

Bílaleigur landsins nýskráðu 36 fólks- og sendibíla í apríl sem er 95% samdráttur frá apríl 2019 þegar þeir voru 681. Það sem af er ári hafa leigurnar nýskráð 637 bíla samanborið við 1.810 á sama tímabili 2019 og nemur samdrátturinn tæpum 65 prósentum.

„Sé litið til þess hver þróun nýskráninga fólks- og sendibíla var á meginmörkuðunum þremur fyrstu fjóra mánuði ársins, það er markaðar einstaklinga, fyrirtækja og bílaleiga, kemur í ljós að hlutdeild einstaklinga hefur vaxið um rúm 10% á tímabilinu. Fyrirtækin hafa dregið saman um rúm 22% og bílaleigur eins og áður segir um tæp 65%,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is