Audi einbeitir sér að rafmagninu

Audi fer hér fremstur í keppni í þýsku götubílamótunum DTM …
Audi fer hér fremstur í keppni í þýsku götubílamótunum DTM í Hockenheim. mbl.is/afp

Þýski  bílsmiðurinn Audi hefur ákveðið að venda sínu kvæði í kross og einbeita sér að þátttöku í rafbílaformúlunni, formúlu E.

Af þessum sökum ætlar Audi að draga sig út úr þýsku götubílaröðinni DTM er mótum ársins í þeirri grein lýkur; hún er ekki farin af stað enn í ár vegna kórónaveirufaraldursins.

Áfram mun Audi þó smíða keppnisbíla til að selja liðum sem verið hafa á mála hjá fyrirtækinu. Verður þeim teflt fram í nafni kaupendanna en ekki Audi.

DTM-röðin hefur verið í gangi í 20 ár en nú er útlit fyrir að BMW verði eini þýski bílsmiðurinn til að tefla fram verksmiðjuliði fram til keppni. Af þeim sökum þykir þessi akstursíþrótt í mikilli hættu.

mbl.is