Hundar bæta okkur

Hundur í bílnum bætir akstur ökumannsins.
Hundur í bílnum bætir akstur ökumannsins. Ljósmynd/Seat

Svo virðist sem ökumenn veiti því sérstaklega athygli þegar hundar eru í bílnum. Spænski bílaframleiðandinn Seat segir ferfætlingana vinsamlegu virka þannig á húsbónda sinn að hann aki varfærnislegar og sé rólegri í sinni.

Alls sögðu 54% hundaeigenda í könnun Seat að þeir ækju varfærnislegar með hundinn um borð. Mest virtust róandi áhrif hundanna vera á hættulegasta aldurshóp ökumanna, 18 til 24 ára. Sögðust 69% þeirra sýna meiri gætni í akstri með hund innanborðs.

Þvert á móti hafði nærvera ferfætlinganna minnst áhrif á eldri ökumenn. Aðeins 42% bílstjóra yfir 55 ára aldri sögðu nærveru hunds í bílnum hafa góð áhrif aksturslega séð.

Fyrir utan þetta virtist návist hunds í bíl jákvæð fyrir andlegt ástand fólks. Alls sögðust 35% spurðra í könnuninni upplifa sig afslappaðri með hann um borð.

Rétt er að minna á að þegar ferðast er með hund, kött eða annað dýr í bílnum ætti helst að hafa dýrið í búri, enda getur það valdið slysahættu ef dýrið getur hreyft sig um farþegarýmið. Mikilvægt er að festa búrið vel, s.s. með öryggisbelti, eða að öryggisgrind skilji að farþega og hunda sem ferðast í skottinu, svo að dýrið eða búrið kastist ekki í farþega í árekstri.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: