Harkan sex gegn símnotkun

AFP

Bílstjórum sem staðnir verða að notkun farsíma í akstri verður ekki sýnd nein miskunn í Frakklandi; ökuskírteinið verður rifið af þeim fum- og orðalaust.

Frá þessu skýra samtökin Sécurité routière sem láta sig varða öryggismál í umferðinni. Geta bílstjórar sem missa skírteinið á staðnum átt von á því að þurfa bíða í heilt ár eftir því að fá það aftur í hendur.

Almenna reglan er að ökumenn geti fengið skírteinið til baka eftir þrjá sólarhring, en þyki sýslumanni þeir hafa fengið full langt með framferði sínu getur hann svipt ökumanninn til hálfs árs réttindamissis - heils árs hafi hann verið valdur að slysi í leiðinni, reynst undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Fleiri ráðstafanir sem ætlað er að stuðla að siðbót í umferðinni koma til framkvæmda í mánuðinum. Þar er kveðið á um refsingar fyrir að brúka ekki stefnuljós fyrir beygjur, fyrir akstur yfir óbrotna línu til að skipta um akrein, fyrir hraðakstur, fyrir að virða ekki forgang gangandi fólks og fyrir hættulega framtúrtöku.

Að sögn Sécurité hefur símanotkun í akstri reynst megin orsök 10% slysa þar sem líkamstjón hefur átt sér stað. Þá þrefaldast hættan á slysi með notkun síma undir stýri.

Í nýliðnum aprílmánuði fækkaði banaslysum í umferðinni í Frakklandi um 55,8%. Megin skýringin er þvingunaraðgerðir í stríðinu gegn kórónuveirunni. 

mbl.is