Kia stefnir á 11 rafbíla fyrir 2025

Kia Soul hefur gengið vel.
Kia Soul hefur gengið vel.

Kia Motors kynnti á dögunum áætlunina Plan S um rafvæðingu og hreyfanleika auk tengjanleika og sjálfbærni í starfseminni. Ætlar Kia að gegna forystuhlutverki innan bílaiðnaðarins í framtíðinni og einbeita sér að rafbílum og rafvæðingu í stað framleiðslu á ökutækjum með brunahreyflum,“ segir í tilkynningu.

Kia ætlar að markaðsetja 11 ólíkar gerðir af rafbílum á heimsvísu fram til ársins 2025 eins og t.d. einkabíla, smájeppa og fjölnotabíla. Fyrsti bíllinn sem smíðaður er á nýrri og sérhannaðri rafbílagrind kemur á markaðinn á næsta ári. Það verður crossover-bíll með 500 km drægi og tekur einungis 20 mínútur að hlaða hann í  hraðhleðslu.

„Það er er mjög spennandi að Kia ætlar að leggja allan þunga á sölu rafbíla í framtíðinni. Strax á næsta ári kemur á markaðinn nýr rafknúinn crossover-bíll með mikið drægi sem hentar íslenska markaðinum afar vel“, segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

Á fyrsta ársfjórðungi jókst sala á rafbílum frá Kia um 75% í samanburði við árið í fyrra, eða í 6.811 bíla. Útblásturslausir bílar voru því 6% af sölu Kia innan Evrópu en það er aukning um 2,9% miðað við árið 2019. Kia Motors í Evrópu  seldi alls 113.026 bíla í löndum ESB og EFTA auk Bretlands á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Jón Trausti segir að sambland langdræginna bíla, 7 ára ábyrgðar, góðrar hönnunar og mikils staðalbúnaðar á góðu verði hafi aukið vinsældir rafbíla Kia til muna. „Nú þegar bjóðum við e-Niro og e-Soul auk 5 mismunandi tengiltvinnbíla með allt að 60 km drægi til afhendingar hér í Öskju“, segir Jón Trausti.

„Allar nýjar gerðir KIA sem héðan í frá koma á markaðinn eru tiltekin útgáfa af rafknúinni aflrás, eða léttur tvinnbíll, tvinnbíll, tengiltvinnbíll eða rafbíll. Kia mun markaðsetja marga af nýju rafbílunum í Evrópu. Salan á e-Niro og e-Soul gengur afar vel og eykst stöðugt, en næsta kynslóð rafbíla mun hraða söluferlinu enn frekar“, segir Jón Trausti.

Kia setti snemma umhverfisvænar aflrásir og rafbíla á markaðinn og slíkt leggur grunninn að „Plan S áætluninni. Markmið Kia er að selja 500.000 rafbíla á alþjóðavísu fyrir árið 2026 og stefnt er á að 20% af sölu Kia verði rafbílar.

Hlutfall hreinna rafbíla í sölu Kiabíla í Evrópu.
Hlutfall hreinna rafbíla í sölu Kiabíla í Evrópu.
mbl.is