Styrkja bílaleigur með bætiefnagjöf

Bílaleigur hafa haft á brattann að sækja eftir fækkun ferðamanna.
Bílaleigur hafa haft á brattann að sækja eftir fækkun ferðamanna. mbl.is/Ómar

Varahlutafyrirtækið Stilling og þýski olíu- og bætiefnaframleiðandinn Liqui Moly hafa ákveðið styrkja bílaleigur á Íslandi með bætiefnagjöfum, samtals að verðmæti 25 milljóna króna. Rekstrarumhverfi bílaleiga er nú örðugt vegna ferðamannaskorts í kjölfar kórónuveirufaraldursins og hafa margar hverjar þurft að fækka í sínum bílaflota. 

„Þetta kom upp á borðið hjá okkur þegar við sáum í hvað stefndi, að faraldurinn yrði töluvert högg fyrir þessa aðila. Þar sem við erum að selja mikið af olíum og bætiefnum inn á þennan markað veltum við því fyrir okkur hvað við gætum gert,“ segir Júlíus Bjarnason, forstjóri Stillingar, í tilkynningu. 

Í fréttatilkynningu frá Stillingu segir: „Allar bílaleigur, rútufyrirtæki og aðrir flotaeigendur fá bætieni frá Liqui Moly sem drepur bakteríur í dísilolíu og kemur í veg fyrir myndun þeirra, ásamt að verja eldsneytiskerfið fyrir tæringu og ryðmyndun.“

Stilling var stofnuð 1960 og fagnar 60 ára afmæli á þessu ári. Stilling er stærsti sjálfstæði innflytjandi og dreifiaðili á varahlutum og fylgihlutum í bifreiðar á Íslandi og rekur sex sölustaði. Liqui Moly er einn stærsti olíuframleiðandi Þýskalands og sérhæfir sig í olíum, smurefnum og bætiefnum í alls kyns farartæki og vélar.

Bætiefnið sem bílaleigur og aðrir rekstraraðilar bílaflota fá gefins, frá …
Bætiefnið sem bílaleigur og aðrir rekstraraðilar bílaflota fá gefins, frá Liqui Moli. Ljósmynd/Stilling
mbl.is