Tesla þyngir sóknina á Íslandi

Tesla ætlar að stækka við sig og efla þjónustuna.
Tesla ætlar að stækka við sig og efla þjónustuna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vegna mikils áhuga á rafbílum Tesla á Íslandi hefur bílsmiðurinn ákveðið að þyngja sókn sína inn á markað hér á landi.

Hefur fyrirtækið ákveðið að flytja í ný húsakynni að Vatnagörðum 24 og 26. Þar verður að finna kynningarsal fyrir bíla og þjónustu. Hingað til hefur Tesla verið með aðsetur að Krókhálsi 13. Áætlað er að flytja í haust.

Í tilkynningu segir Tesla að Íslendingar séu áfram um að skipta yfir í sjálfbærar samgöngur og fyrirtækið muni leggja sig fram um að breytingar af því tagi eigi sér stað skilvirkt og hnökralaust.

„Við erum stolt af því að geta boðið bíla með ríflegt drægi, hátt öryggisstig, rúmgott innanrými, og rafknúið fjórhjóladrif sem fer auðveldlega um hinar ýmsu aðstæður,“ segir í tilkynningunni.

Til viðbótar þessu boðar Tesla komu fjölda hraðhleðslustöðva meðfram vegum landsins til að gefa neytendum kost á rafknúnum ferðum umhverfis landið.

mbl.is