Mikill áhugi á ferða-torfæruhjólum

Björn segir það góða reglu fyrir byrjendur að kaupa sér, …
Björn segir það góða reglu fyrir byrjendur að kaupa sér, í byrjun, aflminna hjól sem auðvelt er að stjórna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seljendur mótorhjóla virðast enn þurfa að bíða eftir að markaðurinn taki almennilega við sér. Salan þótti nokkuð góð á árunum fyrir bankahrun en dróst þá saman rétt eins og bílamarkaðurinn og hefur ekki enn tekist að ná sama flugi.

Björn Ingvar Einarsson, vörustjóri Yamaha hjá Arctic Trucks, segir ástandið viðunandi og að salan sé best í torfæru-ferðahjólum á borð við Yamaha Ténéré 700. „Við verðum vör við það í sýningarsalnum að margir eru áhugasamir en ekki alveg tilbúnir að taka skrefið til fulls að svo stöddu. Innflytjendur höfðu vonast til að markaðurinn myndi glæðast í takt við bílasöluna en síðasta sumar olli vonbrigðum og efnahagsleg óvissa er vís til að lita söluna í sumar.“

Mest er að gera í sölu mótorhjóla í sumarbyrjun og segir Björn að vinsældir torfæru-ferðahjóla endurspegli að einhverju leyti áhuga mótorhjólafólks á að ferðast sem víðast um landið í sumar. „Kaupendur torfæru-ferðahjóla eru oft búnir að fara um Ísland á götuhjólum og hafa horft löngunaraugum til vegarslóðanna sem liggja frá malbikuðu vegunum og upp í fjöllin. Á góðu alhliða torfæru-ferðahjóli má komast nánast hvert á land sem er og ekki amaleg tilfinning að fylgja slóðum hátt upp í fjallshlíðar og upp á tinda.“

Tvö hjól að framan skapa „þéttleika“

Einn af styrkleikum Yamaha er að kaupendur geta nokkuð auðveldlega lagað hjólin að eigin þörfum með því að bæta við aukahlutum og segir Björn að hann selji sjaldan tvö alveg eins torfæru-ferðahjól. „Þau koma til okkar tiltölulega strípuð og svo er hægt að bæta við töskum, bögglabera, þokuljósum, hærri framrúðu og alls kyns viðbótum í takt við það hvernig stendur til að nota mótorhjólið.“

Nýjasta viðbótin í sýningarsal Yamaha eru þriggja hjóla Niken-mótorhjólin en Yamaha ruddi brautina á sínum tíma með þriggja hjóla vespu. „Niken er mjög flott ferðahjól sem á að vera öruggara en hefðbundin mótorhjól án þess samt að fórna þeirri ánægju sem fylgir því að aka um á hefðbundnu tveggja hjóla mótorhjóli og t.d. hallar Niken inn í beygjur líkt og önnur mótorhjól,“ útskýrir Björn. „Í akstri finnur maður greinilega ákveðinn þéttleika í framendanum á Niken; allar hreyfingar verða mildari og ójöfnur í malbikinu mýkri. Smátt og smátt lærir ökumaður að treysta öflugu gripinu í framendanum og nær um leið að slaka meira á við aksturinn.“

Gott að byrja á minna hjóli

Annars heldur Yamaha áfram að bæta jafnt og þétt við mótorhjólaflóruna og betrumbæta hjólin ár frá ári. Björn segir fyrirtækið skarta mjög breiðu úrvali mótorhjóla í ólíkum útfærslum sem hæfi þörfum ólíkra kaupendahópa. „Hingað getur fólk komið og fengið vandaða persónulega ráðgjöf þar sem við finnum í sameiningu það hjól sem hentar best. Hvert hjól er sérpantað og afhendingartíminn yfirleitt á bilinu 2-3 vikur.“

Það hefur sjaldan verið auðveldara að láta drauminn um mótorhjól rætast og á Yamaha á Íslandi í samstarfi við Lykil um að fjármagna allt að 75% af kaupverði nýrra mótorhjóla. Tryggingamálin þarf síðan hver og einn að eiga við sitt tryggingafélag.

Björn mælir með því að fólk kaupi ekki strax í fyrstu atlögu allra stærsta og kröftugasta hjólið sem fjárhagurinn og ökuskírteinið leyfir. „Íslendingum hættir til að vilja fara strax í öflugustu hjólin en skynsamlegra er að byrja á minna hjóli enda auðveldara að hafa á því góða stjórn og nær fólk fyrr góðum tökum á því að hjóla á nettara mótorhjóli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: